Löggjafinn verður strax að setja skorður við uppkaupum útlendinga á heilu byggðarlögunum á Íslandi
Fundargerð
Aðalfundur Landssamtaka landeigenda á Íslandi (LLÍ) 2017.
Haldinn á Radisson SAS Hótel Sögu, Kötlu II, fimmtudaginn 23. mars 2017, kl. 13:00-13:50. Málþing hófst að aðalfundi loknum kl. 14:00 – 16:00.
Fundarstjórar: Óðinn Sigþórsson og Haukur Halldórsson
Fundarritari: Halla Tinna Arnardóttir
Auglýst dagskrá: Hefðbundin aðalfundarstörf samkvæmt samþykktum félagsins.
Örn Bergsson, formaður samtakanna, setti fundinn og bauð fundargesti velkomna. Hann bar fundarmönnum kveðju frá tveimur stjórnarmönnum sem forfölluðust, þeim Guðrúnu Maríu Valgeirsdóttur og Birni Magnússyni.
Hann gerði að tillögu sinni að Óðinn Sigþórsson og Haukur Halldórsson yrðu fundarstjórar. Ekki komu fram fleiri tillögur um fundarstjóra og var tillagan samþykkt athugasemdalaust.
Óðinn Sigþórsson tók við fundarstjórn og lagði til að Halla Tinna Arnardóttir yrði ritari. Tillagan var samþykkt athugasemdalaust.
Því næst var gengið til dagskrár sem lá svo fyrir:
Örn flutti skýrslu stjórnar fyrir árið 2016 og hóf mál sitt á því að minnast þess að í janúar sl. voru 10 ár frá stofnun samtakanna. Á þessum áratug hafi samtökin fest sig í sessi og til þeirra leitað með umsagnir um lagafrumvörp og skipanir í ráð og nefndir sem varða hagsmuni landeigenda.
Örn fór yfir stöðu þjóðlendumála í dag en það heldur áfram með hraða snigilsins um landið. Sl. haust birti Óbyggðanefnd úrskurð sinn í Borgarfirði og voru stór landssvæði úrskurðuð eignarlönd s.s. Arnarvatnsheiði og Geitland. Örn fór stuttlega yfir þessa dóma en ekki er ljóst hvort einhverjum þeirra verður áfrýjað til dómstóla þar eð einhverjir þeirra dóma þar sem land er úrskurðað þjóðlenda orka tvímælis. Óbyggðanefnd hefur nú tekið til umfjöllunar landsvæði Dalasýslunnar og hefur fjármálaráðherra lýst kröfum á því svæði. Að því loknu er eftir að taka til meðferðar Snæfellsnes, Vestfirði, Strandir og Austfirði.
Örn fór yfir ferlið vegna frumvarps um auðlindir, umhverfis- og náttúruvernd til stjórnskipunarlaga sem lagt var fyrir Alþingi síðastliðið haust. Landssamtökin gerðu ítarlegar athugasemdir í ferlinu og var Óðinn Sigþórsson fenginn til að gera umsögn. Örn sagði landssamtökin líkt og áður leitast af fremsta megni við að standa vörð um eignarrétt og yfirráð yfir landi sem þeim tilheyrir og þar hljóti ávallt að vera forgangsmál að stjórnarskráin kveði á um þau réttindi með skýrum hætti. Ekki verði gengið í skjóli almannaréttar sem gjarnan sé haldið á lofti enda sé hann í reynd rangtúlkaður á þeim forsendum að hann eigi rætur í fornlögum. Örn ítrekaði mikilvægi þess að LLÍ gætti réttinda landeigenda til að verja og vernda land sitt í ljósi þess að sá mikli fjöldi ferðamanna sem sækir landið heim nýtur þeirra réttinda sem lögin kveða á um og nefnist almannaréttur.
Örn sagði það þrennt sem hann skynjaði efst á baugi hjá landeigendum.
Stjórn samtakanna hafi fengið áskoranir um að leita lausna á vanda á dreifðu eignarhaldi jörðum. Það verði ekki gert nema með breytingum á jarða- og ábúðarlögum og hugsanlega breytingum á landskiptalögum. Vandamál geti komið upp þegar eigendur lands eru ekki sammála um meðferð og nýtingu sameignarlands síns. Bagalegt sé þegar minnihluti eigenda geti sett meirihluta stólinn fyrir dyrnar og komið í veg fyrir arðbæra nýtingu og í veg fyrir verndun landsins. Á sama tíma þurfi að gæta þess að meirihlutinn geti ekki gert eignarrétt minnihlutaeigenda áhrifalausan og verðlausan. Því þurfi að stíga varlega til jarðar en LLÍ muni beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum í þessu tilliti.
Örn fór því næst yfir kaup erlendra aðila á íslenskum jörðum, s.s. á Grímsstöðum, nokkrum jörðum í Vopnafirði og mögulegum kaupum á miklu landsvæði í Þistilfirði. Sagði hann þetta vekja sig til umhugsunar um hvort við vildum selja landið og afleiðingar þess. Myndarlegir hestabúgarðar sem erlendir aðilar hafi reist og rekið séu af jákvæðum toga en þegar heilar sveitir séu keyptar upp, með hlunnindum sem fylgja vekti það upp spurningar. Örn sagðist telja að þarna þyrfti að setja skorður áður en í óefni færi. Búseta og atvinna í sveitum landsins hljóti í framtíðinni sem hingað til að byggja á því að bændur eigi ábúðarjarðir sínar. Þótt skiptar skoðanir kunni að vera innan samtakanna um hvernig skuli bregðast eigi við megi væri ekki í boði að sitja hjá.
Örn fór því næst yfir vaxandi ferðamannafjölda hér á landi sem hafi haft margvísleg jákvæð áhrif, m.a. bjargað byggð víða í sveitum landsins. Hann sagði náttúruna sjaldnast eiga sér sérstakan málsvara nema í þeim tilvikum sem hún væri í eigu einhvers. Hann sagði íslenskar náttúruperlur verða fyrir óafturkræfum spjöllum um þessar mundir og landánauð vegna ágangs ferðaþjónustufyrirtækja sem skelltu skollaeyrum við spjöllunum. Gjaldtaka á ferðamannastöðum væri eitur í beinum ferðaþjónustufyrirtækja sem vísuðu í hinn svokallaða almannarétt og frjálsa för fólks um landið. Margir landeigendur veltu því fyrir sér „hver er réttur minn til að vernda land mitt fyrir ágangi og óafturkræfum spjöllum“ og minnti Örn á málþingið sem fjallaði um þetta sem á dagskrá væri kl. 14.
Örn sagði stjórn samtaka LLÍ hafa haldið átta bókaða stjórnarfundi frá síðasta aðalfundi. Óskað hafi verið eftir tilnefningum í nefndir og ráð á vegum stjórnsýslunnar um hagsmunamál landeigenda og stjórnin hafi að sjálfsögðu orðið við því. Þetta væri viðurkenning á því að samtökin væru virt sem alvöru samtök fyrir landeigendur. Samtökin þyrftu þó í öllum tilvikum að bera kostnað af sínum fulltrúum í þessum nefndum og ráðum á vegum hins opinbera. Þetta gæti orðið fjárhagslega erfitt af þeim litlu tekjum sem samtökin hafa.
Örn sagði mikilvægt að horfa fram í tímann en samtökin voru stofnuð þegar átök stóðu sem hæst um framkvæmd laga um þjóðlendur. Þau átök hafi ekki verið eins áberandi undanfarin ár en það þýði þó ekki að sátt hafi skapast um framkvæmd laganna. Landeigendur séu ofurseldir fjölmörgum dómum Hæstaréttar sem hafi með niðurstöðum sínum í ákveðnum tilvikum samið lögin upp á nýtt með túlkun sinni í stað þess að dæma á grundvelli þeirra. Inntak eignarréttarins hafi verið þynnt út og hugmyndir um að hann geti fallið niður hafa verið dæmdar lögmætar. Því væri þörf á samtökum landeigenda. Örn sagði það staðreynd að frjáls félagasamtök ættu á brattan að sækja. Því miður væri vaxandi sinnuleysi almennt í þjóðfélaginu og samfélagsmiðlar virtust uppfylla þarfir almennings til afskipta af samfélagsmálum. Hann sagði að með breyttum tíðaranda væri þess freistað að grafa undan lögbundnum réttindum landeigenda til að verja og vernda eign okkar sem yrði verðmætari eftir því sem fleiri vildu njóta. Landeigendur ættu rétt á að nýta auðlind sína sér til ávinnings. Það væri hlægilegt að Ísland skyldi hafa það orðspor erlendis að þar mætti allt, ókeypis.
Örn endaði mál sitt á því að minna landeigendur á ábyrgð sína gagnvart komandi kynslóðum og að landeigendum bæri að skila landinu í jafn góðu eða betra ásigkomulagi til komandi kynslóða. Þá þakkaði Örn stjórnarmönnum fyrir frábært samstarf sl. ár og landeigendum sömuleiðis gott samstarf.
Óðinn óskaði eftir athugasemdum um ársreikning ársins 2016 en reikningunum var dreift prentuðum á fundinum og fylgja fundargerðinni.
Reikningar voru bornir upp fyrir fundinn að loknum umræðum um skýrslu stjórnar og reikninga. Meirihluti samþykkti en enginn mótmælti.
Lúðvík Lárusson frá Breiðabólsstað á Skógarströnd. Fagnaði erindi formannsins, sér í lagi því sem sneri að fjölgun ferðamanna. Full ástæða væri til að taka þetta alvarlega og spurningar vöknuðu um hvenær ætti að setja lög um þetta málefni. Vitundarvakning þyrfti að eiga sér stað meðal bænda sem ættu jarðir og fara að ræða hugmyndir að frumvarpi til að leggja fyrir ferðamálaráðherra um þetta. Almannaréttur í Skandinavíu væri allt annar en sá sem hér væri. Hann lýsti áhyggjum af því ef hálendið yrði opnað fyrir ágangi ferðamanna og sömuleiðis því ef takmarka ætti rétt bænda. Þá sagði Lúðvík að hann sæi ekki betur en að verkefni samtakanna væru svo ærin að kostnaður hefði tvöfaldast á milli ára, ef hann læsi rekstrarreikninginn rétt.
Reynir Bergsveinsson af Vestfjörðum lýsti yfir áhyggjum af drónum og þeirri lagaleysu sem um þá giltu. Einnig ræddi hann um að það væri bagalegt ef einn landeigandi neitaði að heimila minkaveiðar á sínu landi þegar verið væri að reyna útrýma því dýri á tilteknu svæði, t.d. í kringum veiðivötn.
Andrés Arnaldsson tók þá til máls og tók undir með Erni um áhyggjur af því að erlendir aðilar kaupi jarðir. Skoða þurfi lögin í þessu tilliti.
Óðinn Sigþórsson tók undir með Andrési, sagðist starfa fyrir og með veiðifélagi. Þar verði menn varir við þetta. Hann sagði einnig að það væri áhyggjuefni að hlunnindi sem slík safnist á fárra manna hendur enda hafi það áhrif á búsetu í sveitum. Hann sagði mjög jákvætt að formaður hafi vakið máls á þessu mikilvæga málefni jafnvel þótt um umdeilt málefni sé að ræða. Enda þurfi að íhuga rétt manna til að fá sem allra hæst verð f. sína eign og svo þessa samfélagslegu þætti. Óðinn skoraði á LLÍ að skoða þessi mál vel, móta stefnu og fylgja eftir þannig að ekki verði sett lög sem koma landeigendum illa. Þetta væri eitt stærsta málið sem landeigendur glími við um þessar mundir.
Fleiri kvöddu sér ekki hljóðs undir þessum lið.
Örn steig í pontu og upplýsti um að beðið væri fundar með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að ræða jarðalögin. Á sama tíma myndu kaup erlendra aðila vera rædd. Líklega væri hægt að setja einhverskonar skorður í jarða- og ábúðarlög um það.
Þá sagðist Örn þekka vanda í tengslum við dróna vel á eigin skinni en fjögur trippi í hans eigu hefðu horfið fyrirvaralaust úr 20 ha. girðing þar sem þau voru í rúllu. Hrossin fundust ekki fyrr en þrem sólahringum síðar í um 40 km. fjarlægð, út á Skeiðarársandi. Talið er að þar hafi verið ferðamenn að mynda hross með dróna þar sem lýsing á umræddum aðila hafi passað við sambærilegt atvik á Síðunni í Vestur-Skaftafellssýslu.
Örn sagðist hissa á að ekki heyrðist í stjórnarmálamönnum varðandi jarðakaup erlendra aðila, s.s. eins og tilboð í stórt svæði í Þistilfirði en þessi mál yrði að fara yfir.
Athugasemd kom úr sal að jarðasöfnun geti einnig átt við um íslenska aðila.
Haukur bar upp tillögu um óbreytt árgjald. 8.000 kr. fyrir einstaklinga, 50.000 kr. fyrir sveitarfélög með innan við 500 íbúa, 75.000 kr. fyrir sveitarfélög með 501-5.000 íbúa og 150.000 kr. fyrir sveitarfélög með 5001 eða fleiri íbúa, 27.000 kr. fyrir aðra lögaðila. Tillagan var samþykkt án athugasemda.
Tillaga kom fram um að Örn Bergsson, héldi áfram formennsku. Engin önnur tillaga kom fram. Tillagan var samþykkt með lófaklappi.
Lögð var fram eftirfarandi tillaga um aðra stjórnarmenn:
Ekki komu fram tillögur um fleiri aðila. Tillagan var samþykkt með lófaklappi.
Lögð var fram tillaga um eftirfarandi varamenn:
Engar aðrar tillögur settar fram. Samþykkt með lófaklappi.
Tillaga kom fram um að skoðunarmenn yrðu áfram þeir Ólafur H. Jónsson og Haukur Halldórsson. Engar aðrar tillögur voru lagðar fram. Samþykkt með lófaklappi.
Reynir Bergsveinsson bar upp mál um nýtingu þangs en það hefur verið nýtt í einhverjum mæli, þ.e. skorið og unnið í Breiðafirði. Hann sagði stjórnvöld og hafrannsóknarstofnun komin í rannsóknarvinnu sem eigi að verða grundvöllur f. einhverju sem varðar afrakstur Breiðafjarðar. Reynir sagði það ekki hægt að úrskurða með rannsóknum eða með ákvörðun stjórnvalda hvað væri hægt að nýta mikið þang hverju sinni enda hefði á stuttu tímabili rekið jafnmikið þang á land og nýtt var allt síðasta sumar. Þetta væri því ómögulegt að sjá fyrir um. Hann sagði það ljóst að stjórnvöld ætluðu sér að taka fjörurnar eignarnámi líkt og þjóðlendurnar.
Einar Pétursson lýsti yfir áhyggjum af ágangi ríkisvaldsins í land, nú síðast fjörurnar.
Örn Bergsson tók loks til máls og sagði Sigurð Jónsson, stjórnarmann, hafa verið skipaðan í nefnd um breytingar á nytjum sjávarjarða þar sem þangið kæmi við sögu en nefndin væri á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Örn sagði það gott að fá ábendingar ef verið væri að ganga á rétt landeigenda, þá yrði það tekið upp við ráðuneytið en stjórnin hafi ýtt á eftir þessari nefndarvinnu.
Örn þakkaði í lokin það traust sem honum hafi verið veitt með tillögu og kjöri um áframhaldandi formennsku. Verkefnin væru næg framundan og hvatti hann fundarmenn til þess að aðstoða stjórnina við að fjölga félögum. Þá sagði hann það ánægjulegt að sjá hversu margir hafi mætt á fundinn.
Fundi var slitið kl. 13:50 en við tók málþing á vegum LLÍ um rétt landeigenda til að vernda land sitt.
Guðni Ágústsson var fundarstjóri málþingsins og byrjaði hann á að óska landeigendum til hamingju með góðan aðalfund. Hann sagði mörg brýn verkefni framundan hjá landeigendum og mikilvægt væri að taka umræðuna áfram.
Guðni kynnti frummælendur málþingsins:
Guðni bauð Arnóri að taka fyrstan til máls.
Arnór Snæbjörnsson hóf mál sitt á að varpa fram spurningunni sem erindi hans snerist um: „Hverjar eru heimildir landeigenda til að verja land sitt ágangi?“. Í framhaldinu ræddi hann um hvað ágangur væri en það væri gjarnan sett í samhengi við búfénað, þ.e. heimildarlausan ágang búfénaðar eða tilvik þar sem aðili gangi á annan.
Arnór vísaði í sögulegu tilliti til orðsins ágangur, s.s. kvartanir ábúenda frá 18. öld undan nágrönnum og og búfénaði. Hann vakti máls á hver réttur sauðkindarinnar til þess að vera í friði væri og sagði hann í reynd töluverðan enda segði í Jónsbók að „Hver maðr á gróðr á sinni jörð“. Í reynd væru til ítarleg lög um ágang sauðfjár. Í Jónsbók var greinarmunur gerður á því hvort um var að ræða tún, engi, ágang í haga eða ágang afréttarpenings og sagt að hvergi ætti maður að bæta fyrir hagabeit. Hins vegar hefðu verið undantekningar á þessu. S.s. mátti ekki reisa beitarhús nær nágrannajörð en 200 faðma. Svo mætti ekki reka fé sitt í land annars aðila o.fl.
Arnór vísaði í lög um afréttarmálefni og samþykktir um fjárskil frá 1986 þar sem finna má ákvæði um ágang úr einu heimalandi í annað en skv. lögunum er það á kostnað eiganda búfénaðarins ef hann rekur ekki fé sitt sjálfur yfir í eigið land.
Arnór fór næst yfir í umræðu um hugtakið „almannaréttur“. Upphaflega virðist hugtakið hafa haft samskonar merkingu og „mannréttindi“ gera í dag en hugtakið kom inn í lög á áttunda áratug síðustu aldar. Þetta hugtak þyrfti að skoða með hliðsjón af lögum um eignaréttinn sem skv. stjórnarkrá er friðhelgur. Arnór spurði í kjölfarið hvort almannaréttur væri einn þáttur eignaréttar eða skerðing á eignaréttinum.
Í vinnu að nýrri stjórnarskrá kom fram að mönnum skyldi tryggður réttur til að fara um landið og í Hvítbók umhverfisráðuneytisins kæmi fram að „almennarétturinn á sér langa hefð í íslenskum rétti og helgast af því viðhorfi að náttúra íslands sé sameiginleg gæði landsmanna sem öllum sé jafnfrjálst að njóta“. Arnór sagði það umdeilanlegt hvort löng hefð væri fyrir almannaréttinum en þetta tengdist þó ákveðinni grundvallarhugsun.
Arnór sagði að hugsanlega mætti tengja það þjóðfélagsbreytingum sem urðu á 20. öldinni um að eignaréttinum mætti skipta upp og stjórna eða stýra hverjum þætti fyrir sig. Sjálfsábúðarstefna í landbúnaði hafi svo orðið til á millistríðsárunum sem og fleiri lög undir sterkum áhrifum frá Svíþjóð. Arnór sagðist velta því fyrir sér hvernig gengi að fara að öllum þessum lögum og hversu ítarleg þau væru. Álitaefni væru um hin ýmsu málefni og þá reyndi stjórnvaldið gjarnan að skýra með reglugerð o.fl.
Arnór vísaði í 18. gr. l. um náttúruvernd: „Mönnum er heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dveljast þar. [Á eignarlandi í byggð er eiganda eða rétthafa þó heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og göngustíga umferð manna og dvöl á afgirtu óræktuðu landi.] og sagði þá spurningar vakna um hvað væri óræktað land, hvað væri eignarland í byggð og hvort landeigandi væri bundin af ákveðnum sjónarmiðum ef hann bannaði umferð um land sitt.
Arnór sagði að í dag gerðu mörg fyrirtæki út á eignarland, þ.e. selja göngu- og skoðunarferðir um eignarlönd án þess að gert væri ráð fyrir greiðslu til landeigenda. Ef slíkar ferðir eru um eignarlönd í byggð eða geti valið ónæði við nytjar þurfi að hafa samráð við landeiganda. Hins vegar sé ekki kveðið frekar á um heimildir landeiganda.
Arnór ræddi um aðgreiningu á ferðum í persónulegum erindum eða hópferðum og bar saman við Skandinavíu. Í Noregi er ekki gerður greinarmunur á tilgangi ferða en sett takmörk við þeim ágangi sem þola verður. Arnór vísaði til dóms í Svíþjóð þar sem greinarmunurinn er matskennd regla, ekki megi fara yfir þolmörk landeigenda. Í Danmörku er í reglugerð mælt fyrir um að fari fjöldi einstaklinga yfir ákveðinn fjölda þurfi leyfi fyrir ferðinni.
Arnór sagði að reyna myndi í auknum mæli á túlkun lagaákvæða sem heyra til almannaréttar og lauk með því máli sínu.
Guðni gaf áheyrendum færi á stuttum spurningum.
Ágúst Sigurðsson spurði Arnór hvað væri hægt að ganga langt í sameiginlegri lögreglusamþykkt en á Suðurlandi væri verið að reyna slíkt og hvaða þýðingu hún hefði ?
Arnór sagðist gera ráð fyrir því að lögreglustjórinn á Suðurlandi tæki þetta föstum tökum en hann hefði ekki innsýn inn í lögreglulögin. Varðandi það að tjalda hvar sem er væri í lögum um náttúruvernd gefið leyfi fyrir því að slá upp tjaldi til einnar nætur, ef landeigandi býr í nágrenninu mætti velta fyrir hvort ekki sé eðlilegt að hann geti takmarkað slíka næturgistingu. Umhverfisstofnun ætti að geta svarað þessu nánar.
Andrés Arnaldsson, fagstjóri landgræðslunnar, var næstur frummælenda. Hann sagðist fyrir 20 árum síðan hafa skrifað kafla í bók undir heitinu „Hver á að gæta velferðar landsins?“ Hann sagði því auðsvarað, það væri þjóðin öll en þó sýnu mest þeir sem nýttu landið enda ættu þeir langmestra hagsmuna að gæta. Hann sagði margt hafa breyst frá því að þessi grein var skrifuð, þar sem gegndarlaus uppblástur hafði skilið eftir sandauðnir einar, lítill skilningur var á áhrifum beitar og vistkerfi voru í rúst. Kraftaverk hafi hins vegar orðið í landbótum, bæði með aðkomu bænda, almennings og annarra. Þá hefði fækkun fjár, beitarstjórnun, landbótarstarf og veðurfar haft jákvæð áhrif.
Hann sagði þó enn brýn verkefni framundan svo sem lausaganga búfjár. Hann sagðist telja nauðsynlegt að breyta 6. gr. búfjárlaga, 6. greinin ætti að vera númer eitt, þ.e. lausaganga búfjár sé bönnuð og svo komi undanþágur þar á eftir eftir því sem við á. Þá væri uppblástur enn víða vandamál, bæta þyrfti vatnsmiðlun, efla landgæði, binda kolefni í meira mæli til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar og þá þyrfti að vinna forvarnarstarf vegna eldgosahættu til að binda gjósku.
Andrés sagði að þrátt fyrir brýn verkefni þyrfti að fara með gát um landbótarstarf, s.s. um val á tegundum og hvernig ásýnd lands og útsýni er breytt með landbótum. Nefndi Andrés lúpínuna sem dæmi í þessu samhengi. Einnig þyrfti að velta því upp hvar ætti að græða og hvaða landssvæði ætti að láta ósnert. Auðnin gæti einnig verið auðlind.
Andrés sagði Ísland vera einstakt land og það væri fjölbreytni fegurðarinnar sem gerði Ísland einstakt. Það fylgdu því hins vegar áskoranir, ekki síst með hliðsjón af auknum ágangi. Land einfaldlega þyldi ekki allstaðar þetta álag. Náttúran er undirstaða vaxandi ferðaþjónustu og Andrés sagði Ísland verða setja sér markmið um sjálfbæra ferðamennsku. Lítið sé fjallað um verndun auðlindarinnar sem verið er að nýta af ferðaþjónustuaðilum. Andrés benti á að í íslensk náttúra væri notuð í íslenskum auglýsingum og það væri sjálfsagt. Hins vegar væri stefið á þá vegu að „það megi allt“. Andrés sýndi auglýsingamyndir frá bönkum og bílaumboðum þar sem bílar sjást í ósnortinni náttúru. Myndir sem jafnvel sýna utanvegarakstur (í óþökk landeigenda) og fjallahjólamennsku sem engin lög gilda um, skemmtilegt sport sem farið væri úr böndunum. Hann sagði að í öðrum ríkjum kynnu menn að fara í fangelsi fyrir svona og nefndi Bandaríkin sérstaklega.
Andrés sagði það varasamt þar sem einn fer um ósnortið land í utanvegarakstri og sá næsti sem fylgdi á eftir væri að fylgja slóða og þá væri þetta orðið löglegt. Einhver setti jafnvel gps hnitin inn á tækið sitt og þá fylgdu enn fleiri í kjölfarið. Andrés spurði hver réttur landeigenda væri í þessu tilliti en það væru landeigendur sem sætu uppi með skaðann. Þrátt fyrir þetta ætti eignarrétturinn að vera heilagur skv. stjórnarskrá.
Andrés sagði aukna útivist og ferðamennsku auka álag á landsvæði, líka þó um væri að ræða umferð gangandi vegfarenda. Andrés spurði hvort almannarétturinn væri að verða eyðileggjandi ágangur og aftur hver réttur landeigenda væri til að takmarka þessa umferð um eigið land. Andrés sagði hverasvæðin viðkvæm og mörg þeirra lægju undir skemmdum vegna ágangs. Aðdráttaraflið, sem margir virtust telja í hveragatinu, sé fyrst og fremst í litadýrðinni á hverasvæðinu en hún hverfur með ágangi þegar umferð er ekki stýrt. Hann sagði erfitt að spá fyrir um ágang á vinsæla staði, það þyrfti ekki nema einn aðila til að vekja athygli á stað og straumurinn lægi þá þangað og nefndi í þessu samhengi myndband Justin Bieber frá Suðurlandi.
Andrés sagði að úthlutað hefði verið 610 milljónum úr framkvæmdarsjóði við ferðamannastaði, það væri skammarlega lág upphæð og svo væri lítið eftirlit með framkvæmdunum. Gera þyrfti meiri gæðakröfur um framkvæmdir sem ráðist er í á ferðamannastöðum og sömuleiðis efla fagþekkingu um það hvernig best sé að vinna göngustíga, stuðla að landvernd o.fl. Þá gagnrýndi hann að eftirlit og viðhald er ekki inn í framkvæmdarplaninu sem veldur því að þegar framkvæmd er lokið þá er endingartími þessara mannvirkja gjarnan stuttur og slysagildrur myndast. Andrés sagði að þarna vöknuðu spurningar um hvernig eigi að greiða fyrir nauðsynlegar úrbætur. Hann sagðist sjálfur þeirrar skoðunar að ríkið eigi að borga brúsann, m.a. með tekjum úr ferðaþjónustu. Hann sagðist hins vegar mótfallinn gjaldtöku á einstökum svæðum, enda myndi hann ekki sjálfur vilja greiða slíkt gjald og það myndi fljótt drepa ferðaþjónustuna að hans mati.
Andrés sagðist vilja sjá landakaupastefnu hjá ríkinu fram í tímann og að ríkið keypti náttúruperlur til verndar og umsjár. Þá sagði hann þörf fyrir aukna þjónustu við landeigendur og sveitarfélög til landverndar.
Andrés endaði erindi sitt á því að minnast upphafsspurningarinnar „Hver á að gæta velferðar landsins“. Það væri þjóðin öll, en fyrst og fremst þeir sem landið nýta. Nú væri hins vegar flóknara að finna hverjir séu sem landið nýta enda séu það mun fleiri og fjölbreyttari aðilar en áður. Að hans mati ættu landeigendur hins vegar að skipa sér í framvarðasveit og þrýsta á stjórnvöld.
Guðni kynnti Heiðu Guðnýju í pontu, óskaði henni um leið til hamingju með bók sína og sagði hana þarft innlegg í umræðuna.
Heiða Guðný, bóndi á Ljótarstöðum í Skaftaártungu, steig næst í pontu.
Heiða sagðist hafa eignast og orðið þinglýstur eigandi Ljótustaða árið 2006. Landið væri 6400ha og hún líti á það sem skyldu sína að vaka yfir landið. Hún hafi sagt að hún eigi ekki landið heldur landið eigi sig. Það geti hins vegar orðið þungt þegar svo mikið land eigi mann. Suðurorka hafi falast eftir landinu hennar og hún hafi strax sagt að hún vildi ekki selja og það myndi ekki breytast. Þrátt fyrir það var mikið reynt og þrýst á hana í lengri tíma að selja.
Heiða sagðist hafa verið spurð hvort það væri ekki réttur landeigenda líka að selja ef þeir vildu það. Hún sagði það vera rétt landeigenda að skipta niður landi og selja það í pörtum, láta land og byggingar grotna niður, byggja stór og smá mannvirki o.s.frv. Allt þetta væri réttur landeigenda. Hins vegar væri það réttur landeigenda að verja land sitt þegar utanaðkomandi aðilar ætla sér að græða á því. Heiða segist með ásettu ráði ekki tala um virkjanakost heldur tali hún um hugmyndir enda séu þetta fyrir henni aðeins hugmyndir, hugmyndir sem ekki fái brautargöngu inn á hennar búreikning.
Heiða sagði frá því að erfitt væri að berjast á móti aðilum sem gætu eytt sínum vinnutíma í málið þegar hún þyrfti að nýta hverja lausa stund utan langs vinnudags, sem flestir eyddu í áhugamál eða með fjölskyldu, í að lesa sér til, senda umsagnir og athugasemdir o.s.frv. Vinnudagar bænda væru gjarnan langir og að bæta þessu á sig hafi verið mikil og tímafrek vinna. Það hafi hins vegar skv. öllum verið eina leiðin þar sem hlutskipti landeigenda sé að verja sig ágangi þeirra sem ætla að græða á landinu.
Heiða sagðist hafa farið í sveitarstjórnarmál til þess berjast gegn fyrirætlunum Suðurorku og það eitt og sér hafi tekið mikinn tíma í ýmiskonar fundarsetu, bæði á Kirkjubæjarklaustri, í Reykjavík og víðar. Hún hafi einnig ráðið sér lögfræðing.
Heiða sagði að þrátt fyrir þetta væri ekki nóg að eiga land og verjast, land væri samt í mörgum tilfellum tekið og eyðilagt fyrir augunum á landeigandanum. Heiða tók tæmi um sendibíl nágranna sem hún vildi eignast til að gera bílinn út í ferðaþjónustu. Hún spurði hvernig það liti út ef hún gerði tekjuáætlun fyrir sig og samfélagið og ákveddi sanngjarna upphæð fyrir bíleigandann og ætlaðist svo til að hann samþykkti og hann mætti nota bílinn ef hann þyrfti á að halda. Þrátt fyrir að eigandi bílsins vildi ekki selja færi hún af stað að skipuleggja hópferðir, selja o.s.frv. Það væri svo bíleigandans að verja sig, hún skyldi fá bílinn.
Heiða lauk máli sínu á því að segja landeigendur vörslumenn lands. Landeigendur ættu að vera þakklátir og sýna landinu virðingu en ekki bogna út af monti að eiga svo og svo mikið land.
Umræðu fóru fram að þessu loknu
Hilmar Össurarson tók fyrstur til máls í umræðunum og sagði alvarlegasta vandamálið ekki vera nágrannar eins og Arnór nefndi í upphafi heldur væri helsti óvinurinn orðinn ríkisvaldið (oft í nafni orkufyrirtækja) og ferðamenn. Auðlindagjald ætti að leggja á landeigendur þrátt fyrir að landeigendur borgi sína skatta í samræmi við lög og skyldur. Hilmar vísaði í orð Andrésar um að ríkið ætti að eiga land og sagðist ósammála og nefndi landsvæði í eigin sveit sem dæmi. Sú jörð væri í algjörri niðurníðslu ólíkt öðrum jörðum á svæðinu sem væru í eigu bænda en þessi umrædda jörð væri í ríkiseigu. Hilmar sagði vörslumenn landsins vera landeigendur eins og Heiða hafi komið inn á í frábæru erindi. Þeir væru hagsmuna sinna vegna og þeirra tauga sem þeir bera til landsins betur til þess fallnir að vernda jörðina.
Lúðvík Lárusson varpaði fram spurningu til Andrésar þar sem hann sagðist ekki vilja gjaldtöku á einstökum landsvæðum. Spurði Lúðvík hvort ekki væri best að landeigandi sjálfur meti það hvernig megi best vernda landið, taki gjald og byggi upp frekar en að peningarnir fari í stóran pott og guðirnir megi vita hvenær peningarnir koma aftur til sveitanna.
Ragnheiður úr Hvalfirði þakkaði fyrir góð erindi, þá sérstaklega Heiðu og sagðist líta sérstaklega upp til hennar. Ragnheiður sagðist vera að velta fyrir sér mengun frá stóriðju og hvernig landeigandi geti markað sér þá stöðu að vera ekki alltaf í vörn frekar í sókn. Hún segist hafa misst 40 hross sem hún rekur til flúormengunar í Hvalfirði sem komi frá stóriðju og komið hafi upp svokölluð þynningarsvæði á þremur jörðum á svæðinu. Þynningarsvæði þýði að ekkert megi gera á jörðinni, engin nýting megi fara fram. Íbúar á svæðinu séu að glíma við að ekki eru til rannsóknir á hversu mikla mengun bústofn eigi að þola heldur byggi þetta á mati frá Umhverfisstofnun sem tekið er annarsstaðar frá. Hún sé formaður félags sem kallist Umhverfisvaktin í Hvalfirði og þau hafi verið að berjast við þetta undanfarið.
Ingibjörg úr Eyjafirði sagðist um þessar mundir glíma við það vandamál að Rarik sé búið að skipuleggja jarðstreng um landið hennar. Hún segir þessa línu eiga að fara víða, sé eins og illa skrifað Y í laginu og þá þurfi einnig að reisa háspennuhús. Hún sagðist eiga að skrifa undir samning til 50 ára en hún sé orðin 90 ára og að boðin sé eingreiðsla upp á 250 þúsund sem þýði um 5000 kr. á ári. Hún segist reikna með að þurfa að samþykkja lögnina þar sem fólk þurfi jú rafmagn en hún velti fyrir sér hvort hún þurfi að skrifa undir svona langan samning.
Hrafn Margeirssom tók þá til máls og sagði Ingibjörgu vera að tala um streng sem nýtist almenningi en Heiða væri aftur á móti að berjast við einkafyrirtæki með gróðahagsmuni en ekki almannahagsmuni í huga. Hann sagði rétt að huga að því að í framhaldinu kæmi háspennumastur þar sem svo stórar framkvæmdir ættu sér stað og tók dæmi um Kárahnjúkavirkjun. Hrafn gagnrýndi fundarstjóra málþingsins, Guðna, og sagði hann hafa verið hlynntan Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma og fyrir hafi legið að það kæmi gríðarstórt háspennumastur í kjölfarið. Það hafi hins vegar ekki mátt tala um það. Nú sé landsvirkjun að reyna koma upp háspennumastri á öðrum stað. Hrafn velti fyrir sér hvort það væri virkilega landeigenda að standa í að verjast þessum öflum. Hann beindi spurningu til stjórnar LLÍ um hvort hægt væri að taka þetta upp á vettvangi samtakanna. Spyrna þyrfti við fótum. Að lokum þakkaði Hrafn Heiðu fyrir erindi sitt.
Guðmundur Geirsson úr Dölunum spurði Andrés og Arnór um verndun lands. Hvort það eigi að loka því og hvort rétthafi sé landið eða almenningur eða sauðféð sem hafi verið með Íslendingum frá því land byggðist. Þá spurði hann hvort hægt væri að loka gömlum reiðleiðum ef aðrar leiðir væru mögulegar? Menn færu um þessar leiðir á bílum, hestum og fótgangandi og ef þessir vegir eru í slæmu ásigkomulagi sem er gjarnan þar sem þessum leiðum er ekki sinnt þá fari menn jafnvel út fyrir slóðann og þá sé þetta orðinn utanvegarakstur.
Reynir Bergsveinsson ræddi um veg sem lægi yfir æðarvarpið hjá honum en hann hefði ekkert haft um það að segja. Þá lýsti hann yfir óánægju með auðlindagjaldið þar ríkið ætti ekki aðgang að þessu, 10% af verðinu færi til landeiganda en sá sem aflaði fengi greitt eftir vigt. Sjálfur hefði hann á sínum tíma aflað 50-70% þangs.
Ekki komu fleiri spurningar úr sal og frummælendur tóku til við að svara.
Arnór sagðist þekkja vel til frumvarps um nytjastofna sjávar. Rétt væri að það væri gert ráð fyrir gjaldöflun eftir vigtun á sjávarfangi. Það yrði þá lagt á það skip sem sækir aflann. Þetta væri gert í ljósi aukins áhuga á nýtingu þessa afla og til að standa straum af auknum rannsóknum. Einnig mætti í þessu ljósi geta þess að útflutningsverðmæti þangs hafi hækkað um 40% á síðasta ári. Landeigendur þurfi að standa saman í þessu og tryggja sína nýtingu. Það sé hans álit.
Arnór sagði að það væru ekki allir landeigendur vörslumenn landsins, fólk væri misjafnt.
Andrés tók næstur til við að svara en sagðist vilja koma því á framfæri að hann liti aldrei á sauðfé eða ferðamenn sem óvini landsins heldur þyrfti að auka læsi á landið. Þá ræddi hann landakaupastefnuna og sagði að það væru svæði sem ríkið þyrfti að hlutast til um og kaupa, sérstaklega þar sem ósætti væri ef eigendur væri orðnir margir eða t.d. ef erfingjar væru orðnir margir. Ríkið gæti þá keypt og verndað og friðlýst náttúruperlur.
Andrés sagði varðandi gjaldtökuna að hann vildi ekki sjálfur þurfa að taka upp veskið í hvert sinn. Ríkið fengi í sinn hlut mikið fjármagn úr ferðaþjónustunni og ætti að skila hluta af þessum milljörðum sem þeir fá til baka í umönnun svæða.
Þá sagði Andrés varðandi vegaslóðana að verið væri að vinna að vegakorti sem yrði aðalkort þannig að óheimilt væri að aka um slóða sem ekki væru merktir inn á kortinu. Þessari vinnu miði hins vegar of hægt og æ brýnna verður að ljúka því.
Loks sagði Arnór erindi Heiðu hafa verið frábært en umræða um margvísleg málefni er varða landið speglaðist í raun í hennar umfjöllun.
Fundarstjóri tók til máls og sagðist sammála um að hann vildi ekki sjá „hlandskúra“ út um allt. Gjaldtakan þyrfti þá að vera almennari. Í Vatíkaninu í Róm hefði hann borgað 30.000 fyrir að labba um með heyrnartól og það mætti t.d. gera slíkt í Skálholti, enda Skálholtið ekkert ómerkilegra en Vatíkanið.
Heiða tók þá til svara og þakkaði falleg orð í sinn garð. Hún sagðist ekki hafa skoðað að leita til LLÍ vegna síns máls en sagði að það væri mjög sterkt ef hægt væri að þjappa landeigendum saman, hún hins vegar sagðist ekki viss um hvert hlutverk LLÍ væri í því tilliti.
Heiða ræddi ómarkvissa gjaldtöku á ferðamannastöðum, t.d. gjaldtaka á bílastæðum en svo væri gestum vísað inn á þjóðlendur. Hún sagði að sjálfri litist henni betur á komugjald en tryggja þyrfti að þessar upphæðir rynnu til sveitarfélaganna sem hefðu milligöngu um uppbyggingu á ferðamannastöðum í sínu umdæmi sem og að koma fjármagni til einkaaðila eftir því sem við ætti.
Heiða þakkaði öðrum frummælendum fyrir góð erindi og fyrir sig.
Guðni bauð þá formanni LLÍ að eiga lokaorðið.
Örn tók þá til máls og sagðist vilja svara þeirri spurningu sem beint hefði verið til samtakanna um um línulagnir, þ.e. hvort stjórnin aðstoðaði fólk í slíkum deilum. Hann sagði vinnubrögðin hjá Landsneti alveg með ólíkindum, þar sem farið væri á milli bæja með nokkra samninga í farteskinu, þar sem byrjað væri á lélegustu samningunum og svo fengju þeir sem fyrst létu undan minnst greitt. Því væri misjafnt hvað menn fengju greitt fyrir línustæðið. Örn sagði LLÍ því miður hafa úr litlu fjármagni að spila en þó hafi samtökin styrkt landeigendur, s.s. við Blöndulínu og Suðurnesjalínu 2. Samtökin reyni því að hjálpa eins og hægt er, einnig með ráðgjöf um hvert fólk geti leitað. Eins og Heiða kom inn á er gríðarleg vinna fyrir bónda að standa í þessu, enda hafi þessi stórfyrirtæki fjöldann allan af lögfræðingum og starfsfólki til að atast í landeigendum. Örn sagði þó að t.a.m. hafi fallið jákvæður hæstaréttardómur fyrir landeigendur í slíku máli, þar sem hæstiréttur hafnaði eignarnámi í land á Vatnsleysuströnd og það mál væri nú allt stopp.
Örn lauk málþinginu á að þakka frummælendum fyrir afar góð erindi, Guðna styrka fundarstjórn og óskaði að því loknu fundarmönnum góðrar heimferðar.
Í tengslum við aðalfund LLÍ sem haldinn var 13. febrúar s.l. var haldið málþing um landskipti og dreifða eignaraðild. Frummælendur á málþinginu voru Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Ólafur Björnsson, hæstaréttarlögmaður, Guðmundur Lárusson, Stekkum, og Halla Kjartansdóttir, náttúrufræðingur.
Málþingið tókst afar vel en hér er að finna samantekt frá því.
Aðildarfélagar LLÍ og aðrir áhugasamir sem ekki sáu sér fært að mæta á aðalfund sem haldinn var 13. febrúar s.l. geta nú lesið skýrslu stjórnar fyrir árið 2014 hér. Örn Bergsson, formaður LLÍ, flutti skýrslu stjórnar og fór yfir helstu mál ársins sem og þá málaflokka sem stjórnin hyggst leggja áherslu á þetta árið.
Fundargerð fundarins er jafnframt að finna hér.
Góð mæting var á fundinn og vill stjórn LLÍ koma á framfæri þökkum til fundargesta fyrir góðan fund.
Athygli félagsmanna er vakin á málþingi sem ber heitið „Landnýting og ferðaþjónusta með hliðsjón af almannarétti“ sem haldið verður 18. nóvember n.k. frá kl. 10-14 á Hótel Sögu.
Dagskrá málþingsins er svohljóðandi:
Málþingið sett, ávarp: Eiríkur Blöndal, Bændasamtökum Íslands.
Eignarréttur og almannaréttur. Hvað segja lögin? : Helgi Jóhannesson, Lögfræðistofunni LEX.
Þjóðgarðar, ferðaþjónusta og almannaréttur – nokkrar dæmisögur: Einar Á. E. Sæmundsen, Þjóðgarðinumá Þingvöllum.
Réttur landeigenda til að vernda land sitt: Sigurður Jónsson,
Landssamtökum landeigenda.
Frumvarp til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn í þágu náttúruverndar: Guðríður Þorvarðardóttir, Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Að loknum erindum verða pallborðsumræður sem allir frummælendur taka þátt í.
Málþinginu slitið, lokaorð: Sævar Skaptason, Ferðaþjónustu bænda.
Fundarstjóri er Elín R. Líndal, fulltrúi í Landssamtökum landeigenda.
Gert er ráð fyrir að erindin verði flutt frá kl 10-12:15, þá verði gert hádegishlé með hressingu og síðan verði umræður frá kl. 13-14.
Stjórn Landssamtaka landeigenda hvetur sem flesta til þess að mæta og taka þátt í þessum umræðum.
Nokkur deyfð hefur verið yfir heimasíðunni hjá okkur um tíma en stjórnin hefur þó hvergi slegið slöku við en nú er verið að setja inn fundargerðir síðustu mánaða þar sem félagsmenn og aðrir geta kynnt sér starfið. Mörg málefni liggja nú fyrir á komandi hausti. Má þar nefna hagsmunagæslu LLÍ vegna breytinga á jarðalögum en frumvarpið hefur þegar verið lagt fram. Einnig liggur fyrir endurskoðun á þjóðlendulögunum þar sem stjórn LLÍ hyggst beita sér fyrir endurupptökuákvæði í lögin. Jafnframt stendur enn vinna fyrir dyrum varðandi gjaldtöku á ferðamannastöðum og ekki útséð hvernig það fer. Þá vill stjórn LLÍ ennfremur vekja athygli á tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína sem finna má hér.
Þessi mál og fleiri hafa verið til umræðu meðal stjórnarmeðlima og mikilvægt að allir landeigendur taki þátt í þessari umræðu og beiti sér sameiginlega fyrir hagsmunum landeigenda.
Landssamtök landeigenda stóðu fyrir málþingi um gjaldtöku á ferðamannastöðum um leið og aðalfundur fór fram fyrir rúmri viku. Í sumar hyggjast nokkrir landeigendur rukka aðgangseyri að svæðum sínum til þess að stuðla að uppbyggingu á svæðinu. Gjaldtakan hefur vakið mikla athygli og ljóst er að sitt sýnist hverjum um hana.
Stjórn Landssamtaka landeigenda hvetur landeigendur til þess að taka þátt í málefnalegri umræðu um hvernig best skuli staðið að því að vernda svæði og koma í veg fyrir að unnar verði óafturkræfar skemmdir, tryggja öryggi ferðamanna og stuðla að uppbyggingu í kringum náttúruperlur.
Hér er að finna tengil á samantekt frá málþinginu en framsögumenn voru þau Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Óskar Magnússon, talsmaður kerfélagsins, og Sigurður Jónsson, stjórnarmaður LLÍ.