Minnisblað vegna nýrra stjórnskipunarlaga

Áður hefur verið fjallað um ný stjórnskipunarlög og hafa Landssamtökin landeigenda sent inn umsögn vegna þeirra. Stjórnarmenn hafa beðið fundar með atvinnuveganefnd en ekki hefur orðið af honum vegna dagskrárbreytinga. Stjórnarmenn ákváðu því að senda helstu athugasemdir þó stjórnarmenn séu enn fúsir til að skýra athugasemdir sínar nánar á fundi.

Meðal þess sem helst er talið að þurfi að skoða nánar er 13. grein nýrra stjórnskipunarlaga sem fjallar um eignarrétt en gert er ráð fyrir að fella niður það ákvæði núgildandi stjórnarskrár um heimild til að takmarka rétt erlendra aðilja til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtækjum hér á landi. Landssamtökin vara við því að þessi heimild verði felld brott úr stjórnarskrá í ljósi þess brothætta ástands sem nú er í efnahagsmálum þjóðarinnar enda sé engin ástæða til þess að gefa löggjafanum frjálsar hendur að þessu leyti, sér í lagi í ljósi þess að ekki hefur verið leyst úr uppgjöri við erlenda vogunarsjóði.

Þá er talið að 23. grein um atvinnufrelsi sé of matskennd þar sem horfið er frá þeirri meginreglu í gildandi stjórnarskrá að einstök ákvæði séu skýr að lögum en það telja Landssamtökin að sé röng nálgun þegar um grundvallarlög er að ræða en þurfa muni atbeina dómstóla um hvernig beri að túlka þau.

Alvarlegustu athugasemdirnar varða þó 34. greinina um náttúruauðlindir þar sem gerðar eru athugasemdir við orðalag sem þykir ekki hnitmiðað og þá er sérstaklega varað við notkun orðsins þjóðareign í stjórnarskrá, þar sem það hefur ekki gildi að lögum og er að mati landssamtakanna til þess fallið að valda ruglingi og truflun á ríkjandi skilningi á friðhelgi og inntaki eignarréttar. Nær væri að í stað orðsins „þjóðareign“ kæmi orðið auðlindir enda verið að vísa til auðlinda þeirra sem getið er í 1. málsgreininni .

Landsamtökin gera jafnframt alvarlegar athugasemdir við síðustu ákvæði 2. gr. sem gengur gegn eignarrétti sem nú er markaður með lögum nr. 57/1998 og varinn er í gildandi stjórnarskrá. Í raun er þetta ákvæði óþarft ef eitthvað er að marka hugmynd höfunda eins og fram kemur í skýringum við ákvæðið um að ekki eigi að breyta „ríkjandi réttarástandi“. Til skýringar er síðan vitnað til dóma Hæstaréttar nr. 644 og 645/2006 (jarðefni úr jarðgöngum) er varða bótaskyldu.  Að mati landssamtakanna er það fráleitt að taka nú upp í stjórnarskrá ákvæði sem er til þess fallið að takmarka rétt eigenda í eignarlöndum til auðlinda undir yfirborði jarðar sem til þessa hefur ekki verið háður neinum takmörkunum. Þannig væri í raun um eignaupptöku að ræða ef slíkt ákvæði yrði fest í stjórnarskrá.

Landssamtökin leggja því þunga áherslu á að við 111. greinina bætist við að settar séu skorður við því að hægt verði að framselja ríkisvald eða fullveldisrétt yfir þeim auðlindum sem eiga samkvæmt frumvarpinu að teljast ævarandi eign þjóðarinnar til annarra ríkja eða ríkjabandalaga. Bæta mætti við svohljóðandi setningu:

Aldrei má þó framselja ríkisvald yfir þeim auðlindum sem eru í sameign þjóðarinnar sbr. 34.gr.

Landssamtökin vilja því sjá ígrundaðri breytingar komi til breytinga á grundvallarstjórnskipan landsins enda afar mikilvægt að um þær ríki sátt og þær séu til þess fallnar að leysa vandamál en ekki skapa ný deilumál.

Hér má sjá athugasemdirnar í heild sinni en þær voru unnar af stjórnarmönnunum Óðni Sigþórssyni og Sigurði Jónssyni.

Þessi færsla var birt undir Fréttir. Bókamerkja beinan tengil.