Málþing landeigenda um stjórnarskrárfrumvarpið

Landssamtök landeigenda á Íslandi gagnrýna hversu hart er að þeim sótt og hversu lagahyggja ráði stórum hlut þar sem stöðugt sé verið að takmarka og ganga á rétt landeigenda. Hugmyndir um nýja stjórnarskrá séu þar meðtaldar. Samtökin eru ósátt við að grundvallarlög landsins eigi að afgreiða með hraði í stað málefnalegrar umræðu sem grundvallist á ítarlegu mati á áhrifum breytinganna.

Á árinu 2012 komu upp fjöldamörg mál sem snertu hagsmuni landeigenda og ljóst að hvergi má til slaka eigi landeigendur að halda réttindum sínum. Stjórn Landssamtaka landeigenda vill hvetja landeigendur til að fjölmenna á aðalfund sem haldinn verður þann 14. febrúar næstkomandi.

Í tengslum við aðalfundinn verður haldið málþing þar sem ræddar verða breytingar á stjórnarskrá og áhrif þeirra á eignarrétt. Samtökin hafa gagnrýnt breytingarnar og telja ýmis ákvæði bæði óskýr og of mikið málskrúð falið í hinum nýju stjórnskipunarlögum. Umræðustjóri á málþinginu er Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, og frummælendur Karl Axelsson, hæstarréttarlögmaður, Ari Teitsson, varaformaður stjórnlagaráðs og Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður. Málþingið hefst kl. 16.

Frekar má lesa um þessi mál á www.landeigendur.is

F.h. stjórnar Landssamtaka landeigenda,

Örn Bergsson

Þessi færsla var birt undir Fréttir. Bókamerkja beinan tengil.