Góðum aðalfundi lokið: Hiti í fundarmönnum

Aðalfundur Landssamtaka landeigenda á Íslandi fór fram síðastliðinn fimmtudag og var hann afar góður og ljóst að mikill hiti er í landeigendum vegna hinna ýmsu hagsmunamála. Minntu fundargestir á að enginn berðist fyrir hagsmunamálum landeigenda nema þeir sjálfir. Af þeim málum sem rædd voru má helst nefna málefni sjávarjarða, vatnsréttindi, málefni sem varða Landsnet og háspennulínulagnir og mögulega þjóðnýtingu kolefnisbindingu skóga og mikilvægi þess að barist sé fyrir réttindum skógarbænda og annarra landeigenda að fá sanngjarnt verð fyrir það. Þá var að sjálfsögðu komið inn á þjóðlendumálin og mikilvægi þess að fá endurupptökuákvæði í lögin. Þrýsta eigi á þingmenn um svör við því hvort þeir séu tilbúnir að stuðla að því auk þess að spyrja þá út í áform varðandi kolefnisbindingu og hvort raunverulega sé búið að framselja vald yfir þeim málum til ESB.

Hart var deilt á stjórnvöld fyrir hin ýmsu lög og samráðsleysi þó vissulega væri gott fólk í ráðuneytunum. Hafði einn fundargesta á orði að þrátt fyrir að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hefðu gengið harðast fram í þjóðlendumálinu á sínum tíma væri væri landinu sennilega betur borgið ef annar þeirra flokka kæmist í ríkisstjórn næstu fjögur ár. Fundargestir voru þó sammála um að ekki dygði aðeins að verjast heldur yrði að nýta þau fjölmörgu sóknartækifæri sem byðust.

Ítrekuðu margir fundarmenn og tóku þar undir með formanni samtakanna að þörf væri á að fjölga félögum enda væri harkalega sótt úr öllum áttum af pólitískum öflum. Ræddir voru möguleikar um að LLÍ yrðu regnhlífarsamtök fyrir héraðsbundin samtök sem og einhvers konar sameiningu við sérsamtök á borð við Skógarbændur og Samtök eigenda sjávarjarða, jafnvel ferðaþjónustu Bænda einnig. Eiga þessi samtök margvíslega sameiginlega hagsmuni og mikilvægt að dreifa ekki vinnunni um of heldur þjappa sér saman og berjast sameiginlega fyrir þessum gríðarmikilvægu hagsmunum sem um ræðir.

Ljóst er að samtökin eru orðin afar öflug en þau fá til umsagnar flest þau frumvörp sem varða hagsmuni landeigenda og eru reglulega boðuð á fund í nefndum Alþingis. Hins vegar er ljóst að hvergi má til slaka og landeigendur þurfa að sameinast í þessari baráttu!

Hér má lesa fundargerð fundarins og hér skýrslu stjórnar.

Þessi færsla var birt undir Fréttir. Bókamerkja beinan tengil.