Aðalfundur 23. mars 2017

Fundargerð
Aðalfundur Landssamtaka landeigenda á Íslandi (LLÍ) 2017.
Haldinn á Radisson SAS Hótel Sögu, Kötlu II, fimmtudaginn 23. mars 2017, kl. 13:00-13:50. Málþing hófst að aðalfundi loknum kl. 14:00 – 16:00.

Fundarstjórar: Óðinn Sigþórsson og Haukur Halldórsson
Fundarritari: Halla Tinna Arnardóttir

Auglýst dagskrá: Hefðbundin aðalfundarstörf samkvæmt samþykktum félagsins.

Örn Bergsson, formaður samtakanna, setti fundinn og bauð fundargesti velkomna. Hann bar fundarmönnum kveðju frá tveimur stjórnarmönnum sem forfölluðust, þeim Guðrúnu Maríu Valgeirsdóttur og Birni Magnússyni.

Hann gerði að tillögu sinni að Óðinn Sigþórsson og Haukur Halldórsson yrðu fundarstjórar. Ekki komu fram fleiri tillögur um fundarstjóra og var tillagan samþykkt athugasemdalaust.

Óðinn Sigþórsson tók við fundarstjórn og lagði til að Halla Tinna Arnardóttir yrði ritari. Tillagan var samþykkt athugasemdalaust.

Því næst var gengið til dagskrár sem lá svo fyrir:

  1. Skýrsla stjórnar fyrir árið 2016.
  2. Reikningar samtakanna fyrir árið 2016 lagðir fram til samþykktar.
  3. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.
  4. Árgjöld til samtakanna fyrir árið 2017.
  5. Kosning aðal- og varastjórnar.
  6. Kosning skoðunarmanna reikninga.
  7. Önnur mál.

 

 

  • Skýrsla stjórnar fyrir árið 2016

 

Örn flutti skýrslu stjórnar fyrir árið 2016 og hóf mál sitt á því að minnast þess að í janúar sl. voru 10 ár frá stofnun samtakanna. Á þessum áratug hafi samtökin fest sig í sessi og til þeirra leitað með umsagnir um lagafrumvörp og skipanir í ráð og nefndir sem varða hagsmuni landeigenda.

Örn fór yfir stöðu þjóðlendumála í dag en það heldur áfram með hraða snigilsins um landið. Sl. haust birti Óbyggðanefnd úrskurð sinn í Borgarfirði og voru stór landssvæði úrskurðuð eignarlönd s.s. Arnarvatnsheiði og Geitland. Örn fór stuttlega yfir þessa dóma en ekki er ljóst hvort einhverjum þeirra verður áfrýjað til dómstóla þar eð einhverjir þeirra dóma þar sem land er úrskurðað þjóðlenda orka tvímælis. Óbyggðanefnd hefur nú tekið til umfjöllunar landsvæði Dalasýslunnar og hefur fjármálaráðherra lýst kröfum á því svæði. Að því loknu er eftir að taka til meðferðar Snæfellsnes, Vestfirði, Strandir og Austfirði.

Örn fór yfir ferlið vegna frumvarps um auðlindir, umhverfis- og náttúruvernd til stjórnskipunarlaga sem lagt var fyrir Alþingi síðastliðið haust. Landssamtökin gerðu ítarlegar athugasemdir í ferlinu og var Óðinn Sigþórsson fenginn til að gera umsögn. Örn sagði landssamtökin líkt og áður leitast af fremsta megni við að standa vörð um eignarrétt og yfirráð yfir landi sem þeim tilheyrir og þar hljóti ávallt að vera forgangsmál að stjórnarskráin kveði á um þau réttindi með skýrum hætti. Ekki verði gengið í skjóli almannaréttar sem gjarnan sé haldið á lofti enda sé hann í reynd rangtúlkaður á þeim forsendum að hann eigi rætur í fornlögum. Örn ítrekaði mikilvægi þess að LLÍ gætti réttinda landeigenda til að verja og vernda land sitt í ljósi þess að sá mikli fjöldi ferðamanna sem sækir landið heim nýtur þeirra réttinda sem lögin kveða á um og nefnist almannaréttur.

Örn sagði það þrennt sem hann skynjaði efst á baugi hjá landeigendum.

  • sameignarvandi sem skapast þegar jörð er í eigu margra aðila
  • ágangur ferðafólks á land
  • og jarðasöfnun erlendra aðila

Stjórn samtakanna hafi fengið áskoranir um að leita lausna á vanda á dreifðu eignarhaldi jörðum. Það verði ekki gert nema með breytingum á jarða- og ábúðarlögum og hugsanlega breytingum á landskiptalögum. Vandamál geti komið upp þegar eigendur lands eru ekki sammála um meðferð og nýtingu sameignarlands síns. Bagalegt sé þegar minnihluti eigenda geti sett meirihluta stólinn fyrir dyrnar og komið í veg fyrir arðbæra nýtingu og í veg fyrir verndun landsins. Á sama tíma þurfi að gæta þess að meirihlutinn geti ekki gert eignarrétt minnihlutaeigenda áhrifalausan og verðlausan. Því þurfi að stíga varlega til jarðar en LLÍ muni beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum í þessu tilliti.

Örn fór því næst yfir kaup erlendra aðila á íslenskum jörðum, s.s. á Grímsstöðum, nokkrum jörðum í Vopnafirði og mögulegum kaupum á miklu landsvæði í Þistilfirði. Sagði hann þetta vekja sig til umhugsunar um hvort við vildum selja landið og afleiðingar þess. Myndarlegir hestabúgarðar sem erlendir aðilar hafi reist og rekið séu af jákvæðum toga en þegar heilar sveitir séu keyptar upp, með hlunnindum sem fylgja vekti það upp spurningar. Örn sagðist telja að þarna þyrfti að setja skorður áður en í óefni færi. Búseta og atvinna í sveitum landsins hljóti í framtíðinni sem hingað til að byggja á því að bændur eigi ábúðarjarðir sínar. Þótt skiptar skoðanir kunni að vera innan samtakanna um hvernig skuli bregðast eigi við megi væri ekki í boði að sitja hjá.

Örn fór því næst yfir vaxandi ferðamannafjölda hér á landi sem hafi haft margvísleg jákvæð áhrif, m.a. bjargað byggð víða í sveitum landsins. Hann sagði náttúruna sjaldnast eiga sér sérstakan málsvara nema í þeim tilvikum sem hún væri í eigu einhvers. Hann sagði íslenskar náttúruperlur verða fyrir óafturkræfum spjöllum um þessar mundir og landánauð vegna ágangs ferðaþjónustufyrirtækja sem skelltu skollaeyrum við spjöllunum. Gjaldtaka á ferðamannastöðum væri eitur í beinum ferðaþjónustufyrirtækja sem vísuðu í hinn svokallaða almannarétt og frjálsa för fólks um landið. Margir landeigendur veltu því fyrir sér „hver er réttur minn til að vernda land mitt fyrir ágangi og óafturkræfum spjöllum“ og minnti Örn á málþingið sem fjallaði um þetta sem á dagskrá væri kl. 14.  

Örn sagði stjórn samtaka LLÍ hafa haldið átta bókaða stjórnarfundi frá síðasta aðalfundi. Óskað hafi verið eftir tilnefningum í nefndir og ráð á vegum stjórnsýslunnar um hagsmunamál landeigenda og stjórnin hafi að sjálfsögðu orðið við því. Þetta væri viðurkenning á því að samtökin væru virt sem alvöru samtök fyrir landeigendur. Samtökin þyrftu þó í öllum tilvikum að bera kostnað af sínum fulltrúum í þessum nefndum og ráðum á vegum hins opinbera. Þetta gæti orðið fjárhagslega erfitt af þeim litlu tekjum sem samtökin hafa.

Örn sagði mikilvægt að horfa fram í tímann en samtökin voru stofnuð þegar átök stóðu sem hæst um framkvæmd laga um þjóðlendur. Þau átök hafi ekki verið eins áberandi undanfarin ár en það þýði þó ekki að sátt hafi skapast um framkvæmd laganna. Landeigendur séu ofurseldir fjölmörgum dómum Hæstaréttar sem hafi með niðurstöðum sínum í ákveðnum tilvikum samið lögin upp á nýtt með túlkun sinni í stað þess að dæma á grundvelli þeirra. Inntak eignarréttarins hafi verið þynnt út og hugmyndir um að hann geti fallið niður hafa verið dæmdar lögmætar. Því væri þörf á samtökum landeigenda. Örn sagði það staðreynd að frjáls félagasamtök ættu á brattan að sækja. Því miður væri vaxandi sinnuleysi almennt í þjóðfélaginu og samfélagsmiðlar virtust uppfylla þarfir almennings til afskipta af samfélagsmálum. Hann sagði að með breyttum tíðaranda væri þess freistað að grafa undan lögbundnum réttindum landeigenda til að verja og vernda eign okkar sem yrði verðmætari eftir því sem fleiri vildu njóta. Landeigendur ættu rétt á að nýta auðlind sína sér til ávinnings. Það væri hlægilegt að Ísland skyldi hafa það orðspor erlendis að þar mætti allt, ókeypis.

Örn endaði mál sitt á því að minna landeigendur á ábyrgð sína gagnvart komandi kynslóðum og að landeigendum bæri að skila landinu í jafn góðu eða betra ásigkomulagi til komandi kynslóða. Þá þakkaði Örn stjórnarmönnum fyrir frábært samstarf sl. ár og landeigendum sömuleiðis gott samstarf.

 

  • Reikningar samtakanna fyrir árið 2016

 

Óðinn óskaði eftir athugasemdum um ársreikning ársins 2016 en reikningunum var dreift prentuðum á fundinum og fylgja fundargerðinni.

Reikningar voru bornir upp fyrir fundinn að loknum umræðum um skýrslu stjórnar og reikninga. Meirihluti samþykkti en enginn mótmælti.

 

  • Umræða um skýrslu stjórnar og reikninga samtakanna fyrir árið 2016

 

Lúðvík Lárusson frá Breiðabólsstað á Skógarströnd. Fagnaði erindi formannsins, sér í lagi því sem sneri að fjölgun ferðamanna. Full ástæða væri til að taka þetta alvarlega og spurningar vöknuðu um hvenær ætti að setja lög um þetta málefni. Vitundarvakning þyrfti að eiga sér stað meðal bænda sem ættu jarðir og fara að ræða hugmyndir að frumvarpi til að leggja fyrir ferðamálaráðherra um þetta. Almannaréttur í Skandinavíu væri allt annar en sá sem hér væri. Hann lýsti áhyggjum af því ef hálendið yrði opnað fyrir ágangi ferðamanna og sömuleiðis því ef takmarka ætti rétt bænda. Þá sagði Lúðvík að hann sæi ekki betur en að verkefni samtakanna væru svo ærin að kostnaður hefði tvöfaldast á milli ára, ef hann læsi rekstrarreikninginn rétt.

Reynir Bergsveinsson af Vestfjörðum lýsti yfir áhyggjum af drónum og þeirri lagaleysu sem um þá giltu. Einnig ræddi hann um að það væri bagalegt ef einn landeigandi neitaði að heimila minkaveiðar á sínu landi þegar verið væri að reyna útrýma því dýri á tilteknu svæði, t.d. í kringum veiðivötn.

Andrés Arnaldsson tók þá til máls og tók undir með Erni um áhyggjur af því að erlendir aðilar kaupi jarðir. Skoða þurfi lögin í þessu tilliti.

Óðinn Sigþórsson tók undir með Andrési, sagðist starfa fyrir og með veiðifélagi. Þar verði menn varir við þetta. Hann sagði einnig að það væri áhyggjuefni að hlunnindi sem slík safnist á fárra manna hendur enda hafi það áhrif á búsetu í sveitum. Hann sagði mjög jákvætt að formaður hafi vakið máls á þessu mikilvæga málefni jafnvel þótt um umdeilt málefni sé að ræða. Enda þurfi að íhuga rétt manna til að fá sem allra hæst verð f. sína eign og svo þessa samfélagslegu þætti. Óðinn skoraði á LLÍ að skoða þessi mál vel, móta stefnu og fylgja eftir þannig að ekki verði sett lög sem koma landeigendum illa. Þetta væri eitt stærsta málið sem landeigendur glími við um þessar mundir.

Fleiri kvöddu sér ekki hljóðs undir þessum lið.  

Örn steig í pontu og upplýsti um að beðið væri fundar með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að ræða jarðalögin. Á sama tíma myndu kaup erlendra aðila vera rædd. Líklega væri hægt að setja einhverskonar skorður í jarða- og ábúðarlög um það.

Þá sagðist Örn þekka vanda í tengslum við dróna vel á eigin skinni en fjögur trippi í hans eigu hefðu horfið fyrirvaralaust úr 20 ha. girðing þar sem þau voru í rúllu. Hrossin fundust ekki fyrr en þrem sólahringum síðar í um 40 km. fjarlægð, út á Skeiðarársandi. Talið er að þar hafi verið ferðamenn að mynda hross með dróna þar sem lýsing á umræddum aðila hafi passað við sambærilegt atvik á Síðunni í Vestur-Skaftafellssýslu.

Örn sagðist hissa á að ekki heyrðist í stjórnarmálamönnum varðandi jarðakaup erlendra aðila, s.s. eins og tilboð í stórt svæði í Þistilfirði en þessi mál yrði að fara yfir.  

Athugasemd kom úr sal að jarðasöfnun geti einnig átt við um íslenska aðila.

 

  • Árgjöld til samtakanna fyrir árið 2017.

 

Haukur bar upp tillögu um óbreytt árgjald. 8.000 kr. fyrir einstaklinga, 50.000 kr. fyrir sveitarfélög með innan við 500 íbúa, 75.000 kr. fyrir sveitarfélög með 501-5.000 íbúa og 150.000 kr. fyrir sveitarfélög með 5001 eða fleiri íbúa, 27.000 kr. fyrir aðra lögaðila. Tillagan var samþykkt án athugasemda.

 

  • Kosning aðalstjórnar og varastjórnar

 

Tillaga kom fram um að Örn Bergsson, héldi áfram formennsku. Engin önnur tillaga kom fram. Tillagan var samþykkt með lófaklappi.

Lögð var fram eftirfarandi tillaga um aðra stjórnarmenn:

  • Guðrún María Valgeirsdóttir
  • Sigurður Jónsson
  • Snorri H. Jóhannesson
  • Björn Magnússon

Ekki komu fram tillögur um fleiri aðila. Tillagan var samþykkt með lófaklappi.

Lögð var fram tillaga um eftirfarandi varamenn:

  • Aðalsteinn Jónsson
  • Erlendur Ingvarsson
  • Þórólfur Sveinsson
  • Haukur Halldórsson
  • Elín R. Líndal

Engar aðrar tillögur settar fram. Samþykkt með lófaklappi.

 

  • Kosning skoðunarmanna reikninga

 

Tillaga kom fram um að skoðunarmenn yrðu áfram þeir Ólafur H. Jónsson og Haukur Halldórsson. Engar aðrar tillögur voru lagðar fram. Samþykkt með lófaklappi.

 

  • Önnur mál

 

Reynir Bergsveinsson bar upp mál um nýtingu þangs en það hefur verið nýtt í einhverjum mæli, þ.e. skorið og unnið í Breiðafirði. Hann sagði stjórnvöld og hafrannsóknarstofnun komin í rannsóknarvinnu sem eigi að verða grundvöllur f. einhverju sem varðar afrakstur Breiðafjarðar. Reynir sagði það ekki hægt að úrskurða með rannsóknum eða með ákvörðun stjórnvalda hvað væri hægt að nýta mikið þang hverju sinni enda hefði á stuttu tímabili rekið jafnmikið þang á land og nýtt var allt síðasta sumar. Þetta væri því ómögulegt að sjá fyrir um. Hann sagði það ljóst að stjórnvöld ætluðu sér að taka fjörurnar eignarnámi líkt og þjóðlendurnar.

Einar Pétursson lýsti yfir áhyggjum af ágangi ríkisvaldsins í land, nú síðast fjörurnar.

Örn Bergsson tók loks til máls og sagði Sigurð Jónsson, stjórnarmann, hafa verið skipaðan í nefnd um breytingar á nytjum sjávarjarða þar sem þangið kæmi við sögu en nefndin væri á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Örn sagði það gott að fá ábendingar ef verið væri að ganga á rétt landeigenda, þá yrði það tekið upp við ráðuneytið en stjórnin hafi ýtt á eftir þessari nefndarvinnu.

Örn þakkaði í lokin það traust sem honum hafi verið veitt með tillögu og kjöri um áframhaldandi formennsku. Verkefnin væru næg framundan og hvatti hann fundarmenn til þess að aðstoða stjórnina við að fjölga félögum. Þá sagði hann það ánægjulegt að sjá hversu margir hafi mætt á fundinn.

Fundi var slitið kl. 13:50 en við tók málþing á vegum LLÍ um rétt landeigenda til að vernda land sitt.

Þessi færsla var birt undir Fundargerðir, Stjórn. Bókamerkja beinan tengil.