-
Nýlegar færslur
Tenglar
-
Landeigendur Reykjahlíðar ehf. hefja gjaldtöku. Grein sem birtist í Morgunblaðinu, 22. febrúar 2014, bls. 2.
Birt í Uncategorized
Slökkt á athugasemdum við Landeigendur Reykjahlíðar ehf. hefja gjaldtöku. Grein sem birtist í Morgunblaðinu, 22. febrúar 2014, bls. 2.
Formaður LLÍ um náttúrupassann: hafa þarf samráð við landeigendur. Grein sem birtist í Morgunblaðinu, 24. febrúar 2014, bls. 4.
Birt í Uncategorized
Slökkt á athugasemdum við Formaður LLÍ um náttúrupassann: hafa þarf samráð við landeigendur. Grein sem birtist í Morgunblaðinu, 24. febrúar 2014, bls. 4.
Helstu tíðindi aðalfundar
Aðalfundur LLÍ var haldinn á Hótel Sögu síðastliðinn fimmtudag. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf en einnig var haldið málþing um gjaldtöku á ferðamannastöðum í tengslum við fundinn. Um 50 manns sóttu fundinn og enn fleiri málþingið.
Flutt var skýrsla stjórnar um verkefni stjórnar á síðastliðnu ári og bar þar hæst kröfur fjármálaráðherra á svæði 8, í vestur Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, þar sem kröfur komu mjög á óvartenda væri þar seilst langt inn á eignarlönd, stjórnarskrármálið, frumvarp að nýjum náttúruverndarlögum og frumvarp um breytingar á vatnalögum. Örn, formaður samtakanna flutti skýrslu stjórnar, og kvaðst ánægður með að sjónarmið landeigenda um eignarréttarákvæði stjórnarskrár komust á dagskrá þegar breytingar á stjórnarskrá voru til umfjöllunar. Nú hefur ný stjórnarskrárnefnd undir forystu Sigurðar Líndal hefði verið skipuð mun LLÍ að sjálfsögðu fylgjast vel með þeirri vinnu. Erni varð einnig tíðrætt um samráðsleysi ríkisstjórnar á síðasta kjörtímabili þar sem aðkoma LLÍ hefði greinilega jafnan aðeins verið til málamynda og rök fulltrúa LLÍ hefðu hlotið lítinn hljómgrunn. Þó hefði með harðfylgi tekist að ná fram ýmsum hagsmunamálum, s.s. að fresta breytingum á vatnalögum og lögum um rannsóknir á auðlindum í jörðu en með frumvarpinu hefði fullkominn og beinn eignarréttur landeigenda að auðlindinni sem grunnvatn er verið afnumin.
Deilur um háspennulínur eru enn í umræðunni þar sem landeigendur vilja fá þessar línur í jörð enda eiga þær á ýmsum stöðum að liggja í túnfæti hjá þeim eða fara yfir verðmæt heimalönd, má þar nefna Blöndulínu og Suðurnesjalínu 2. Um er að ræða mikið umhverfismál að mati stjórna LLÍ en áhugavert er að fá fregnir af niðurstöðum hagkvæmnismats á kostnaði jarðstrengja sem bændur í Skagafirði ásamt fleiri aðilum létu verkfræðistofu í Kanada framkvæma. Ekki var hægt að láta vinna slíka greiningu hérlendis vegna þess að flestar verkfræðistofur sem gætu framkvæmt slíkt mat starfa fyrir Landsnet eða Landsvirkjun. Niðurstaða hinnar kanadísku verkfræðistofu var hins vegar að jarðstrengir eru mun ódýrari en haldið hefur verið fram í umræðu og eru því, þvert á það sem haldið hefur verið fram, raunhæfur kostur þar sem línur þurfa að liggja um viðkvæmt land. Það er því ljóst að þarna þarf að halda á lofti hagsmunum landeigenda og gæta þess að réttur þeirra sem og umhverfisins verði ekki fótum troðinn.
Á fundinum voru einnig ræddar tilvonandi breytingar á þjóðlendulögunum en stjórnvöld eru tilneydd til að framlengja þau á árinu þar sem tímaramminn sem ætlaður var í að ljúka þjóðlendumálunum er að renna sitt skeið en 1. mars næstkomandi eru 15 ár frá fyrstu kröfugerð sem gerð var í þjóðlendumálunum. Þó eru enn líklega 8-10 ár þar til síðasti hæstarréttardómur fellur í þessum málum, eða jafnvel enn lengri tími. Fulltrúar LLÍ bíða eftir fundi með forsætisráðherra en mikilvægt hagsmunamál er að setja endurupptökuákvæði á grundvelli nýrra gagna í lögin nú þegar þau verða endurnýjuð og munu samtökin beita sér ötult fyrir því. Einn fundarmaður bað fulltrúa LLÍ einnig um að nýta tækifærið á slíkum fundi og ræða þá gjafsókn sem landeigendum var lofuð, svo allir gætu varið hendur sínar þegar kæmi að þessum kröfum, en ekki hefði verið staðið við þessi loforð og þess dæmi að fólk sæti upp með mikinn kostnað vegna málaferlanna enda hefði ríkið ekki vílað fyrir sér að áfrýja dómum óbyggðanefndar sem og héraðsdóma.
Örn Bergsson var endurkjörinn sem formaður stjórnarinnar og aðrir fulltrúar stjórnarinnar, Sigurður Jónsson, Guðrún María Valgeirsdóttir og Elín R. Líndal voru öll endurkjörin. Óðinn Jónsson gaf hins vegar ekki kost á sér áfram og var í hans stað kjörinn fyrrum varamaður hans, Snorri Jóhannesson.
Kjörnir varamenn voru Aðalsteinn Jónsson, Erlendur Ingvarsson, Þórólfur Sveinsson, Haukur Halldórsson og Björn Magnússon. Skoðunarmenn samtakanna voru endurkjörnir en það eru þeir Ólafur H. Jónsson og Jóhannes Kristjánsson.
Mörg mál komu til tals á fundinum en um þau má lesa í fundargerð fundarins sem finna má hér.
Að lokum vill stjórn LLÍ vill koma á framfæri innilegum þökkum til Óðins Jónssonar fyrir afar gott samstarf og óeigingjarnt starf í þágu samtakanna.
Birt í Uncategorized
Slökkt á athugasemdum við Helstu tíðindi aðalfundar
Vel heppnaður aðalfundur
Aðalfundur landssamtakanna var haldinn á Hótel Sögu í dag. Góð mæting var á fundinn sem og málþingið sem haldið var að fundinum loknum en þar var gjaldtaka á ferðamannastöðum rædd. Líflegar umræður sköpuðust um það sem og mörg önnur málefni en á næstu dögum munu birtast fréttir af fundinum og málþinginu.
Skýrsla stjórnar fyrir árið 2013 sem flutt var á fundinum hefur nú verið sett inn á heimasíðuna og er hana að finna hér.
Birt í Uncategorized
Slökkt á athugasemdum við Vel heppnaður aðalfundur
Aðalfundur LLÍ, 20. febrúar 2014
Birt í Uncategorized
Slökkt á athugasemdum við Aðalfundur LLÍ, 20. febrúar 2014
Aðalfundur og málþing
Nú líður að aðalfundi Landssamtaka landeigenda og framundan eru margvísleg verkefni í starfi félagsins.
Aðalfundur félagsins verður haldinn 20. febrúar næstkomandi á Hótel Sögu en nánari tíma- og staðsetning verður auglýst á næstu dögum. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf í samræmi við lög og samþykktir félagsins.
Í tengslum við aðalfundinn verður jafnframt haldið málþing líkt og síðustu ár en yfirskriftin að þessu sinni er „Gjaldtaka á ferðamannastöðum“. Framsögumenn koma fram í fundarboði sem sent verður út á næstu dögum og sem einnig verður sett á heimasíðu. Búast má við spennandi umræðum enda umræður um þessi málefni hávær um þessar mundir. Þá má gera ráð fyrir að ræddar verði hugmyndir um svokallaðan náttúrupassa en eðlilegt er að landeigendur komi að því ferli þar eð sumir þeirra staða sem fjölsóttir eru af ferðamönnum eru í einkaeigu . Félagsmenn og aðrir áhugasamir eru hvattir til að fjölmenna á fundinn sem og málþingið.
Að lokum má nefna að fundargerð nóvemberfundar stjórnarinnar er komin inn en hana er að finna hér.
Birt í Uncategorized
Slökkt á athugasemdum við Aðalfundur og málþing
Ný fundargerð komin inn
Fundargerð frá 41. fundi LLÍ er nú komin á heimasíðuna.
Finna má fundargerðina hér en helstu málefni síðastliðins veturs voru þar rædd sem og starfið framundan.
Væntanleg er fundargerð síðasta fundar sem haldinn var í júní. Ljóst er að enn liggja mörg verkefni og baráttumál fyrir og hvergi má til slaka frekar en fyrri daginn.
Við minnum á facebook síðu LLÍ https://www.facebook.com/landeigendur?fref=ts og hvetjum félagsmenn til að fylgjast með fréttum þar.
Birt í Uncategorized
Slökkt á athugasemdum við Ný fundargerð komin inn
LLÍ fagnar því að frumvarp til breytinga á vatnalögum hafi ekki náð fram að ganga
Tekist hefur verið á um svokölluð vatnalög á undanförnum tveimur vikum. Frumvarpið, sem er afar umdeilt, fjallar um vatnalög og rannsóknir á auðlindum í jörðu. Í frumvarpinu var í raun eignarréttur landeigenda yfir grunnvatni afnuminn með lagasetningu og þannig gengið gegn 72. gr. gildandi stjórnarskrár um vernd eignarréttar.
Landssamtökin gengu hart fram í þessu máli, fóru m.a. á fund til atvinnuveganefndar og komu sjónarmiðum sínum á framfæri auk þess að þrýsta á stjórnmálamenn. Telur LLÍ sig eiga því þátt í að stöðva þessa þjóðnýtingu á réttindum landeigenda og fagnar því að frumvarpið hafi ekki náð fram að ganga.
Umsögn LLÍ má lesa hér en hún var unnin í samvinnu við Landssamband veiðifélaga. Frumvarpið, sem ljóst er að fór ekki í gegn fyrir þinglok, má skoða hér.
Birt í Fréttir
Slökkt á athugasemdum við LLÍ fagnar því að frumvarp til breytinga á vatnalögum hafi ekki náð fram að ganga
Landssamtök landeigenda á Facebook
Landssamtök landeigenda hafa nú stofnað facebook síðu og hvetjum við fólk til að dreifa síðunni sem víðast. Með þessu er ætlunin að gera fólki auðveldara að fylgjast með tilkynningum frá samtökunum sem og að benda á áhugaverðar fréttir sem tengjast landeigendum.
Síðuna má finna hér: https://www.facebook.com/landeigendur
Þá hvetjum við landeigendur og aðra áhugasama til að hafa samband í gegnum heimasíðuna, facebook eða með því að hafa samband við stjórnarmenn hafi þeir einhverjar ábendingar eða tillögur.
Birt í Uncategorized
Slökkt á athugasemdum við Landssamtök landeigenda á Facebook
Athyglisvert málþing um eignarréttinn og stjórnarskrána
Landssamtök landeigenda héldu á dögunum málþing í tengslum við aðalfund samtakanna. Var þar rætt um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá og áhrif þess á eignarréttinn. Málþingið var afar áhugavert en framsögumenn voru þeir Ari Teitsson, stjórnlagaráðsfulltrúi, Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður og Karl Axelsson, hæstaréttarlögmaður. Umræðustjóri var Guðni Ágústsson, f.v. ráðherrra.
Ari Teitsson var fyrstur framsögumanna með erindi og talaði hann um nauðsyn þess að hagsmunasamtök á borð við LLÍ væru til staðar. Hins vegar væri oft á tíðum erfitt að flétta saman ólíka hagsmuni en samfélagið væri þannig upp byggt að taka þurfi tillit til margra þátta og margra aðila. Hann taldi nauðsynlegt að huga að því að eðli mannana breyttist lítið og að manninum væri eðlislægt að berjast fyrir hagsmunum sínum. Ari fjallaði í erindi sínu um sögu samfélagssáttmála en fyrirbærið væri aldagamalt og eðli þeirra og inntak hefði þróast í aldanna rás. Fjallaði hann í framhaldi af því um að menn kynnu að hafa mismunandi skoðanir á því hvort að breyta þyrfti stjórnarskránni frá 1944. Gerðar hefðu verið til þess þrjár raunverulegar tilraunir sem ekki hefðu tekist og líklega væri það vegna þess að alþingismenn hefðu ekki tíma til að leggjast yfir það eins og þyrfti.
Ari sagðist telja ýmislegt benda til þess að við þyrftum nýja stjórnarskrá, til dæmis það að stjórnskipun væri óskýr, eignarhald á auðlindum væri óskýrt o.fl.. Gefa þyrfti þjóðfélaginu von um betri tíma og breytt og bætt stjórnarskrá gæti verið ein leið til þess. Vandamálið væri hins vegar hvernig ætti að fara að því en reynt hefði verið í þrjú ár en ekki liti út fyrir að það næðist á þessu ári eins og hann hafði vonast til.
Ari fjallaði um mikilvægi auðlinda fyrir svo harðbýlt land sem Ísland væri og hver mikilvægt væri að tryggja þessar auðlindir fyrir komandi kynslóðir. Spurningin yrði þá hvernig mætti gera slíkt án þess að ganga á eignaréttinn. Það þyrftu sennilega löglærðir menn að skoða en grundvallarspurningin væri hvort landsmenn væru ekki sammála um að tryggja þyrfti auðlindirnar. Útfærsluatriði væri svo hvernig það yrði gert. Ari tók fram að í tillögum stjórnlagaráðs um auðlindaákvæði hefði ekki verið átt við auðlindir sem væru í einkaeigu. Hann lauk erindi sínu á því að hvetja til umræðu um hvort með þessu ákvæði væri gengið of langt eða skammt í að tryggja auðlindir fyrir framtíðarkynslóðir.
Reimar Pétursson bar íslenska stjórnarskrárferlið við hið bandaríska á sínum tíma. Bandaríkjamenn væru búnir að vera með sína stjórnarskrá frá árinu 1787 þannig að eitthvað hlytu þeir að hafa gert rétt. Þó væri hægt að bera ferlið saman við fleiri lönd.
Reimar bar saman fimm þætti í þessum tveim ferlum og sagði niðurstöðurnar vera afgerandi:
- Hverjar voru þjóðfélagsástæður þegar ákveðið var að ráðast í verkið?
- Hvernig menn voru valdir til verksins?
- Hvernig sátt tókst um ferlið?
- Hvernig markmið voru sett um efnislega niðurstöðu?
- Hvernig var staðið að samþykkt afrakstursins?
Í Bandaríkjunum hefði verið brýn nauðsyn fyrir setningu stjórnarskrár enda hefði þar verið háð mikið borgarastríð. Á Íslandi hins vegar hefði ekki verið nein nauðsyn fyrir nýrri stjórnarskrá og raunar hefði stjórnarskráin tekið nokkrum breytingum í takt við tímann og frekari breytingar hefðu verið mögulegar gegnum þær stofnanir sem hefðu þróast og fest sig í sessi, svo sem Alþingi. Reimar kom inn á að hér hefði hins vegar orðið hrun sem margir töldu nauðsynlegt að gera upp, meðal annars með nýrri stjórnarskrá. Hann benti hins vegar á að afar stórt hrun hefði einnig orðið í Bandaríkjunum um 1930 þar sem 2/3 allra banka töpuðu öllu og fólk svalt heilu hungri. Þrátt fyrir þetta hefði engum dottið í hug og breyta bandarísku stjórnarskránni enda engin stjórnarskrárregla sem getur fyrirbyggt efnahagsáhrif.
Í Bandaríkjunum voru það ráðamenn ríkjanna sem tilnefndu fulltrúa og kom almenningur ekki að því ferli. Valdir voru menn sem höfðu skapað sér hvað mesta virðingu fyrir þekkingu á lögfræði, stjórnmálaheimspeki og höfðu reynslu. Á Íslandi hefði hins vegar valið verið handahófskennt. Hér voru persónukjörskosningar þar sem almenningur átti að velja. Óverulegir þröskuldar voru til staðar sem leiddi til þess að um 500 voru í framboði. Almenningur gat með engu móti borið saman 500 stefnuskrár en allir mótuðu sínar eigin áherslur og þá gátu fjölmiðlar ekki gert þeim skil né boðið upp á umræður frambjóðenda. Slíkar umræður og kynningar séu forsenda þess að almenningur viti um hvað er verið að kjósa. Niðurstaðan varð lakasta þátttaka kosninga í sögunni. Og þeir sem kosnir voru var samansafn af þekktum einstaklingum: bloggarar, fjölmiðlafólk, fólk úr spjallþáttum o.s.frv..
Þarna hefðu ekki verið kjörnir sérfræðingar í stjórnskipunarrétti þó Reimar hafi tekið fram að hann vildi ekki að sérfræðingar kæmu aðeins að þessu. Hann taldi það verk þjóðkjörinna fulltrúa að meta störf sérfræðinganefndar um slík mál. Reimar spurði jafnframt hvort það væri gáfulegt að 25 einstaklingar með ólíkar hugmyndir semji stjórnarskrá, einhverjir sem þurfi að taka 10 daga námskeið í stjórnskipunarrétti til að öðlast þekkingu á málefninu?
Næst ræddi Reimar um sátt ferlisins. Í Bandaríkjunum tókst breið sátt um ferlið sem George Washington leiddi en hann studdu allir. Hér hins vegar hefði ekki verið nein sátt og nefndi Reimar þar þrjú atriði:
- Kosningarnar til stjórnlagaráðs voru ekki aðeins óskynsamlegar heldur hefðu þær brotið hraklega á ákvæðinu um leynilegar kosningar. Svo mjög að Hæstiréttur sá sig knúinn til að ógilda kosningarnar.
- Síðar var ákveðið að skipa þá sem flest atkvæði fengu af Alþingi. Meirihluti réði þar öllu en minnihluti fékk ekki að skipa fulltrúa.
- Stjórnlagaráð virðist ekki hafa gerðar neinar tilraunir til að leysa ágreiningsefni. Voru tillögurnar ekki útræddar og um þær var ekki sátt innan stjórnlagaráðsins. Stjórnlagaráð leit á þetta sem tillögur sem yrði breytt, jafnvel ekki notaðar nema að hluta og varpað yrði hlutkesti um það. Engin sátt getur orðið um slíkt ferli.
Næst fór Reimar yfir það að í stjórnarskrárferlinu hér á Íslandi hefðu ekki verið nein skýr markmið ólíkt því sem var í Bandaríkjunum þar sem skýr markmið voru um niðurstöðurnar. Reimar nefndi þjóðfundinn í því samhengi en sagði hann hafa skilað litlu nema einhverju skýji af orðum á borði við sanngirni, réttlæti, jafnrétti, lýðræði. Allt orð sem hljómuðu mjög vel en væru mjög almenns eðlis. Ekki skýr markmið eins og í Bandaríkjunum.
Hér á landi hefði hvergi nærri náðst sátt um ferlið ólíkt því sem var í Bandaríkjunum. Þar gátu ríkin ákveðið að standa utan við stjórnarskrána og raunar eru dæmi þess að ríki hafi gert það. Þá gat naumur meirihluti innan fjögurra ríkja fellt tillöguna. Þetta var til þess fallið að sátt skapaðist um niðurstöðuna. Almenningur kaus svo um heildstæða stjórnarskrá þar sem almenningur vissi um hvað verið var að kjósa. Ólíkt ferlinu hér þar sem málið var lagt fyrir almenning í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem notuð voru óljós hugtök á borð við „lagt til grundvallar“ og „frumvarp“. Reimar sagðist ekki undrast það að margir hafi sniðgengið þjóðaratkvæðagreiðsluna, enda hafi almenningur varla skilið þetta.
Reimar var harðorður í lokaorðum erindis síns og sagði það ljóst að ákveðnir stjórnmálamenn vildu samþykkja þessar breytingar sama hvaða afleiðingar það kynni að hafa. Mistekist hefði hrapallega að ná einhverri sátt um málið. Allt ferlið markaðist af tilraunastarfsemi og ríkulegri viðleitni til að læra ekkert af öðrum þjóðum. Hann vildi því benda á það að Íslendingar þyrftu ekki að finna upp hjólið heldur mættu þeir læra af öðrum.
Karl Axelsson var síðastur framsögumanna og fjallaði hann um eignarréttinn og fór lítillega yfir inntak hans og sögu. Hann fór sérstaklega yfir þau ákvæði í frumvarpinu til nýrra stjórnskipunarlaga sem hann taldi varða landeigendur.
13. gr. sem ætlað er að leysa af hólmi 72. gr. gildandi stjórnarskrár
Nýmæli: Þar væri nýmæli: „Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög“.Þessi grein væri óþarfi ef miðað er við útgangspunkt skv. skýringum Stjórnlagaráðs um að ekki skyldi hrófla við eða breyta inntaki verndar einkaeignarréttar. Þá eru tengsl hefðbundins eignarréttar við þjóðareignarhugtak í 32. gr. og 34. gr óljós.
32. gr. Menningar- og náttúruverðmæti
Ákvæðið hefur afar rúma merkingu sbr. dæmatalningu í skýringum Stjórnlagaráðs. Þá er þjóðareignarhugtakið annað og rýmra en skv. 34. gr.. Samkvæmt þessu er eignaupptaka mögulega þar sem ekki er gerður fyrirvari um það hvar eign þessara verðmæta liggja nú. Ef þau eru í einkaeigu þá má skilja það sem svo að gerð verði upptaka ríkisins á þessum eignum og þau færð í þjóðareign. Hins vegar hefði mátt laga þetta með tveim orðum „eign ríkisins“. Það er að aðeins væri átt við þau verðmæti sem þegar væri í eigu hins opinbera.
34. gr. Auðlindir og þjóðareign
Karl sagði greinargerðina með 34. grein ónothæfa eins og hún liti út. Hún væri upptalning á einhverjum hugmyndum um þjóðareign en aldrei væri að finna neina útlistun á þeim nýju hugtökum á borð við þjóðareign á þessum náttúrugæðum og auðlindum sem þetta ákvæði á að ná yfir. Gagnrýnivert væri að telja upp auðlindir í stað þess að láta hinum almenna löggjafana um túlkun þess. Hann sagði jafnframt að ákvæðið væri mjög „fiskimiðað“ og minna hugað að auðlindum á landi. Karl gagnrýndi jafnframt upptalningu á þrem auðlindum og vísaði þar til setningarinnar „sama máli gegnir um eignaréttindi sem taka til vatns, jarðhita og jarðefna í eigu ríkisins“ í 2. mgr.. Velta megi fyrir sér hvort gagnálykta megi út frá þessu að ekki sé þar átt við aðrar auðlindir en sem taldar eru upp.
Karl gagnrýnir það að skipt hafi verið út orðinu „einkaeignaréttur“ fyrir „í einkaeigu“. Með þessu væru eignarréttindi sveitarfélaganna í landinu gerð upptæk. Ríki gætu ekki selt jarðir með auðlindum nema selja ekki laxveiðiár og svo framvegis. Þá yrðu vatnsréttindi óljós og eignarréttur sjávarjarða yrði afnumin þar sem tekið var út „utan netalaga“.
Ekki væri verið að fara að því sem stjórnlagaráð gat í tillögum sínum um að ekki eigi að gera breytingar á eignarréttinum. Með því að setja inn ákvæðið „Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.“ væri auðvitað verið að gera breytingar á eignarréttinum. Karl sagði loks að tillögur meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar væru almennt afar slæmar og 34. greinin hefði ekki batnað í meðförum Alþingis, raunar væri búið að setja aftur inn annmarka sem sérfræðingahópurinn hefði tekið út.
Ljóst er af undangenginni umfjöllun sem og umfjöllun í fjölmiðlum að þetta mál er flókið og margskonar hagsmunir sem um ræðir þarna. Umræður líkt og sköpuðust í tengslum við málþingið eru afar mikilvægar og vill stjórn LLÍ hvetja til áframhaldandi málefnalegra og djúpra umræða um raunveruleg áhrif breytinga á grundvallarlögum landsins.
Stjórn Landssamtaka landeigenda vill koma á framfæri kærum þökkum til allra framsögumanna sem og málþingsstjórans.
Birt í Fréttir
Slökkt á athugasemdum við Athyglisvert málþing um eignarréttinn og stjórnarskrána