Málþing: Landnýting og ferðaþjónusta með hliðsjón af almannarétti

Athygli félagsmanna er vakin á málþingi sem ber heitið „Landnýting og ferðaþjónusta með hliðsjón af almannarétti“ sem haldið verður 18. nóvember n.k. frá kl. 10-14 á Hótel Sögu.

Dagskrá málþingsins er svohljóðandi:

Málþingið sett, ávarp:  Eiríkur Blöndal, Bændasamtökum Íslands.

Eignarréttur og almannaréttur.  Hvað segja lögin? :  Helgi Jóhannesson, Lögfræðistofunni LEX.

Þjóðgarðar, ferðaþjónusta og almannaréttur – nokkrar dæmisögur: Einar Á. E. Sæmundsen, Þjóðgarðinumá Þingvöllum.

Réttur landeigenda til að vernda land sitt: Sigurður Jónsson,
Landssamtökum landeigenda.

Frumvarp til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn í þágu náttúruverndar: Guðríður Þorvarðardóttir, Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Að loknum erindum verða pallborðsumræður sem allir frummælendur taka þátt í.

Málþinginu slitið, lokaorð:  Sævar Skaptason, Ferðaþjónustu bænda.

Fundarstjóri er  Elín R. Líndal, fulltrúi í Landssamtökum landeigenda.
Gert er ráð fyrir að erindin verði flutt frá kl 10-12:15, þá verði gert hádegishlé með hressingu og síðan verði umræður frá kl. 13-14.

Stjórn Landssamtaka landeigenda hvetur sem flesta til þess að mæta og taka þátt í þessum umræðum.

Birt í Uncategorized

Starfið framundan: haust 2014

Nokkur deyfð hefur verið yfir heimasíðunni hjá okkur um tíma en stjórnin hefur þó hvergi slegið slöku við en nú er verið að setja inn fundargerðir síðustu mánaða þar sem félagsmenn og aðrir geta kynnt sér starfið. Mörg málefni liggja nú fyrir á komandi hausti. Má þar nefna hagsmunagæslu LLÍ vegna breytinga á jarðalögum en frumvarpið hefur þegar verið lagt fram.  Einnig liggur fyrir endurskoðun á þjóðlendulögunum þar sem stjórn LLÍ hyggst beita sér fyrir endurupptökuákvæði í lögin. Jafnframt stendur enn vinna fyrir dyrum varðandi gjaldtöku á ferðamannastöðum og ekki útséð hvernig það fer. Þá vill stjórn LLÍ ennfremur vekja athygli á tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína sem finna má hér.

Þessi mál og fleiri hafa verið til umræðu meðal stjórnarmeðlima og mikilvægt að allir landeigendur taki þátt í þessari umræðu og beiti sér sameiginlega fyrir hagsmunum landeigenda.

Birt í Uncategorized

Gjaldtaka á ferðamannastöðum: málþing

Landssamtök landeigenda stóðu fyrir málþingi um gjaldtöku á ferðamannastöðum um leið og aðalfundur fór fram fyrir rúmri viku. Í sumar hyggjast nokkrir landeigendur rukka aðgangseyri að svæðum sínum til þess að stuðla að uppbyggingu á svæðinu. Gjaldtakan hefur vakið mikla athygli og ljóst er að sitt sýnist hverjum um hana.

Stjórn Landssamtaka landeigenda hvetur landeigendur til þess að taka þátt í málefnalegri umræðu um hvernig best skuli staðið að því að vernda svæði og koma í veg fyrir að unnar verði óafturkræfar skemmdir, tryggja öryggi ferðamanna og stuðla að uppbyggingu í kringum náttúruperlur.

Hér er að finna tengil á samantekt frá málþinginu en framsögumenn voru þau Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Óskar Magnússon, talsmaður kerfélagsins, og Sigurður Jónsson, stjórnarmaður LLÍ.

Birt í Uncategorized

Landeigendur Reykjahlíðar ehf. hefja gjaldtöku. Grein sem birtist í Morgunblaðinu, 22. febrúar 2014, bls. 2.

Úr Morgunblaðinu, 22. febrúar 2014, bls. 2

Mynd | Birt þann by

Formaður LLÍ um náttúrupassann: hafa þarf samráð við landeigendur. Grein sem birtist í Morgunblaðinu, 24. febrúar 2014, bls. 4.

OrnBergsson_Samradviðlandeigendur

Mynd | Birt þann by

Helstu tíðindi aðalfundar

Aðalfundur LLÍ var haldinn á Hótel Sögu síðastliðinn fimmtudag. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf en einnig var haldið málþing um gjaldtöku á ferðamannastöðum í tengslum við fundinn. Um 50 manns sóttu fundinn og enn fleiri málþingið.

Flutt var skýrsla stjórnar um verkefni stjórnar á síðastliðnu ári og bar þar hæst kröfur fjármálaráðherra á svæði 8, í vestur Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, þar sem kröfur komu mjög á óvartenda væri þar seilst langt inn á eignarlönd, stjórnarskrármálið, frumvarp að nýjum náttúruverndarlögum og frumvarp um breytingar á vatnalögum. Örn, formaður samtakanna flutti skýrslu stjórnar, og kvaðst ánægður með að sjónarmið landeigenda um eignarréttarákvæði stjórnarskrár komust á dagskrá þegar breytingar á stjórnarskrá voru til umfjöllunar. Nú hefur ný stjórnarskrárnefnd undir forystu Sigurðar Líndal hefði verið skipuð mun LLÍ að sjálfsögðu fylgjast vel með þeirri vinnu. Erni varð einnig tíðrætt um samráðsleysi ríkisstjórnar á síðasta kjörtímabili þar sem aðkoma LLÍ hefði greinilega jafnan aðeins verið til málamynda og rök fulltrúa LLÍ hefðu hlotið lítinn hljómgrunn. Þó hefði með harðfylgi tekist að ná fram ýmsum hagsmunamálum, s.s. að fresta breytingum á vatnalögum og lögum um rannsóknir á auðlindum í jörðu en með frumvarpinu hefði fullkominn og beinn eignarréttur landeigenda að auðlindinni sem grunnvatn er verið afnumin.

Deilur um háspennulínur eru enn í umræðunni þar sem landeigendur vilja fá þessar línur í jörð enda eiga þær á ýmsum stöðum að liggja í túnfæti hjá þeim eða fara yfir verðmæt heimalönd, má þar nefna Blöndulínu og Suðurnesjalínu 2. Um er að ræða mikið umhverfismál að mati stjórna LLÍ en áhugavert er að fá fregnir af niðurstöðum hagkvæmnismats á kostnaði jarðstrengja sem bændur í Skagafirði ásamt fleiri aðilum létu verkfræðistofu í Kanada framkvæma. Ekki var hægt að láta vinna slíka greiningu hérlendis vegna þess að flestar verkfræðistofur sem gætu framkvæmt slíkt mat starfa fyrir Landsnet eða Landsvirkjun. Niðurstaða hinnar kanadísku verkfræðistofu var hins vegar að jarðstrengir eru mun ódýrari en haldið hefur verið fram í umræðu og eru því, þvert á það sem haldið hefur verið fram, raunhæfur kostur þar sem línur þurfa að liggja um viðkvæmt land. Það er því ljóst að þarna þarf að halda á lofti hagsmunum landeigenda og gæta þess að réttur þeirra sem og umhverfisins verði ekki fótum troðinn.

Á fundinum voru einnig ræddar tilvonandi breytingar á þjóðlendulögunum en  stjórnvöld eru tilneydd til að framlengja þau á árinu þar sem tímaramminn sem ætlaður var í að ljúka þjóðlendumálunum er að renna sitt skeið en 1. mars næstkomandi eru 15 ár frá fyrstu kröfugerð sem gerð var í þjóðlendumálunum. Þó eru enn líklega 8-10 ár þar til síðasti hæstarréttardómur fellur í þessum málum, eða jafnvel enn lengri tími. Fulltrúar LLÍ bíða eftir fundi með forsætisráðherra en mikilvægt hagsmunamál er að setja endurupptökuákvæði á grundvelli nýrra gagna í lögin nú þegar þau verða endurnýjuð og munu samtökin beita sér ötult fyrir því. Einn fundarmaður bað fulltrúa LLÍ einnig um að nýta tækifærið á slíkum fundi og ræða þá gjafsókn sem landeigendum var lofuð, svo allir gætu varið hendur sínar þegar kæmi að þessum kröfum, en ekki hefði verið staðið við þessi loforð og þess dæmi að fólk sæti upp með mikinn kostnað vegna málaferlanna enda hefði ríkið ekki vílað fyrir sér að áfrýja dómum óbyggðanefndar sem og héraðsdóma.

Örn Bergsson var endurkjörinn sem formaður stjórnarinnar og aðrir fulltrúar stjórnarinnar, Sigurður Jónsson, Guðrún María Valgeirsdóttir og Elín R. Líndal voru öll endurkjörin. Óðinn Jónsson gaf hins vegar ekki kost á sér áfram og var í hans stað kjörinn fyrrum varamaður hans, Snorri Jóhannesson.

Kjörnir varamenn voru Aðalsteinn Jónsson, Erlendur Ingvarsson, Þórólfur Sveinsson, Haukur Halldórsson og Björn Magnússon. Skoðunarmenn samtakanna voru endurkjörnir en það eru þeir Ólafur H. Jónsson og Jóhannes Kristjánsson.

Mörg mál komu til tals á fundinum en um þau má lesa í fundargerð fundarins sem finna má hér.

Að lokum vill stjórn LLÍ vill koma á framfæri innilegum þökkum til Óðins Jónssonar fyrir afar gott samstarf og óeigingjarnt starf í þágu samtakanna.

Birt í Uncategorized

Vel heppnaður aðalfundur

Aðalfundur landssamtakanna var haldinn á Hótel Sögu í dag. Góð mæting var á fundinn sem og málþingið sem haldið var að fundinum loknum en þar var gjaldtaka á ferðamannastöðum rædd. Líflegar umræður sköpuðust um það sem og mörg önnur málefni en á næstu dögum munu birtast fréttir af fundinum og málþinginu.

Skýrsla stjórnar fyrir árið 2013 sem flutt var á fundinum hefur nú verið sett inn á heimasíðuna og er hana að finna hér.

Birt í Uncategorized