Skýrsla stjórnar flutt á aðalfundi 14. febrúar 2013. Skýrsluna flutti Örn Bergsson, formaður samtakanna.
Fundarstjóri, góðir fundarmenn.
Eitt af grundvallaratriðum Landssamtakanna er að standa vörð um eignarrétt landeigenda og ekki sé gengið á þennan rétt við setningu laga og reglugerða. Á síðastliðnu ári voru fjölmörg verkefni sem stjórnin tókst á við sem varða eignarrétt og réttindi landeigenda. Ég mun hér í skýrslu minni fjalla um þau helstu mál sem stjórnin var að fást við á liðnu ári.
Í júlí mánuði birti Óbyggðanefnd kröfur ríkisins til þjóðlendna á svæði 8 sem eru Húnavatnssýslur og vestanverður Skagafjörður. Kröfurnar eru hógværari en áður en samt er enn verið að gera kröfur í eignarlönd manna og jarðir sem hafa verið lagðar til afrétta á þessu svæði. Það má segja að hálft landið sé undir í þjóðlendumálum. Allt frá Hellisheiði í austri að Hrútafjarðará í Vestri.
Mörg mál eru óútkljáð á norðurlandi, ýmist fyrir óbyggðanefnd eða dómstólum, á þessu svæði öllu.
Þetta sýnir að samtökin hafa náð árangri! Það að kröfugerðir eru nú mun ásættanlegri en þær voru og Hæstiréttur hefur slakað á sönnunarkröfum sínum.
Samtökin hafa hins vegar ekki náð fram sínu helsta baráttumáli, það er að fá þjóðlendulögunum breytt. Að inn í lögin komi ákvæði um að lögfest yrði að íslenska ríkið hefði sönnunarbyrðina fyrir eignatilkalli sínu á þinglýstar jarðir landeigenda.
Hins vegar höfum við unnið að því að fá inn í þjóðlendulögin endurupptökuákvæði. Að hægt sé að fá endurupptöku mála í ljósi nýrra gagna. Fyrir liggja drög að frumvarpi og munum við freista þess að fá það tekið inn í þingið að loknum kosningum. Stjórnin hefur metið stöðuna í þinginu þannig að líkur væru á að málið gleymdist í því umróti sem verið hefur á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Þetta gæti haft mikla þýðingu fyrir landeigendur sem misst hafa eignarlönd sín en eins og fram hefur komið getur eitt skjal ráðið úrslitum.
Umhverfisráðherra hefur lagt fram frumvarp að nýjum náttúruverndarlögum. Stjórn samtakanna hefur mótmælt ýmsum breytingum sem þar eru boðaðar og teljum við að sumar breytingar gangi í raun yfir alla almenna skynsemi.
Sú ráðagerð sem fram kemur í frumvarpinu að lögfesta bann við akstri vélknúinna ökutækja á eignarlöndum utan vega er ekki ásættanleg og felur í sér skerðingu á eignarrétti og nýtingu lands. Svo er okkur boðið upp á að ráðherra geti með reglugerð gefið okkur takmarkaðan umferðarrétt um eigin landareignir. Með leyfisveitingum þar sem Umhverfisstofnun verður heimilt að taka gjald fyrir viðkomandi leyfisveitingu.
Við erum hins vegar meðmæltir því að settar verði skýrari reglur um umferð almennings um landið og vélknúinn ökutæki óviðkomandi aðila því þetta er því miður orðið mikið vandamál með auknum ferðamannastraumi erlendis frá.
Allar okkar umsagnir um Náttúruverndarlögin, sem og önnur lög, er að finna á heimasíðu okkar, landeigendur.is en stjórn samtakanna mun áfram beita sér af hörku gegn því að umferðarréttur landeigenda um eigin lönd verði skertur.
Dregin hefur verið upp dökk mynd af afleiðingum hlýnunar jarðar. Eitt af þeim ráðum til að sporna við þeirri þróun er aukin kolefnisbinding en þar geta bændur og aðrir landeigendur átt mikil tækifæri í framtíðinni því við búum í stóru strjálbýlu landi með lítinn gróður.
Málið snýst um að þeir sem menga andrúmsloftið borgi fyrir það en hinir sem binda kolefni fái greitt fyrir kolefnisbindinguna.
Á síðasta ári voru samþykkt lög um loftslagsbreytingar. Lögin nr. 70/2012 eru ætluð til að innleiða tilskipun ESB um markað með heimildir til losunar á gróðurhúsalofttegundum. Ísland er þannig algjörlega bundið af reglum og aðlögun ESB varðandi sölu og útgáfu losunarheimilda.
Ísland framseldi þetta vald til ESB með samningum fyrir 3 árum.
Ótrúlegt er hvað þessi samningur hefur hlotið litla umfjöllun hér á landi! Skógarbændur hafa bent á að af lögunum um loftslagsbreytingar sé viss þjóðnýtingarlykt sem vissulega má finna stoð fyrir.
Ísland hefur sett sér háleit markmið til ársins 2020 í loftslagsmálum og þau markmið verða ekki uppfyllt nema með gríðarlegu átaki í uppgræðslu á landi.
Það er mat allra helstu sérfræðinga á þessu sviði að með því að koma á markaði fyrir losunarheimildir losnar úr læðingi mikið afl til að græða upp okkar gróðurlitla land.
Í kolefnisbindingu eru því geysilega miklir fjármunir sé miðað við þar sem viðskipti hafa verið leyfð með kolefniskvóta og þessi verðmæti eiga ekkert eftir að gera nema hækka í verði. Þetta er flókið mál og hafa má um þau mörg orð en ég tel að samtökin eigi að leggjast á árarnar með skógarbændum í þessu máli og reyna að tryggja það að þjóðnýtingaröfl verði ekki ofan á í þessu máli og að fram fari ekki enn ein eignaupptakan. Það eru ekki bara skógarbændur sem eiga hagsmuna að gæta í þessu máli heldur allir þeir sem stunda uppgræðslu á landi.
Ýmsir helstu lögspekingar okkar halda því fram að innleiðing þessarar tilskipunar ESB og því framsali sem lögin fela í sér hafi verið framið stjórnarskrárbrot. Framsal ríkisvalds í þeim mæli sem lögin kveða á um er langt umfram það stjórnarskráin heimilar og það er ömurlegt til þess að vita að meirihluti Alþingis hikar ekki við að brjóta stjórnarskrána með þessum hætti. Fulltrúar skógarbænda hafa lýst yfir áhuga á að samtökin komi að þessu máli og munum við ræða það á næstu vikum með hvaða hætti það verður.
Umhverfisráðherra hefur auglýst tillögu að landsskipulagsstefnu 2013-2024. Í henni felst meðal annars að lagningu háspennulína á að beina niður í byggð en hlífa hálendi við línulögnum, meðal annars við hringtengingu raforkukerfisins. Þessu höfum við mótmælt. Okkar skoðun er best lýst með því að vísa í umsögn okkar um landsskipulagsstefnuna en þar kemur eftirfarandi meðal annars fram:
„Sjónmengun er mikil af háspennulínum og áhrifasvæði þeirra þar af leiðandi mikið. Með tilkomu nýrra háspennulína á láglendi þá hamla þær frekari uppbyggingu útivistarsvæða, frístundabyggða og íbúðarhúsa á stórum svæðum. Hagsmunir landeigenda er að fundin verði ásættanleg leið fyrir orkuflutning, þannig að þær skerði sem minnst athafnir landeigenda bæði í leik og starfi. Það er mat LLÍ að láglendið er ekki það landsvæði sem nýta á til hringtengingar raforkukerfisins. Hringtenging raforkukerfisins á að vera fjarri byggð eins og kostur er.“
Að fá 30 metra há möstur í túngarðinn hjá sér getur hreinlega eyðilagt búsetu á viðkomandi jörð og rýrt verðmæti þeirra mikið. Við erum ekki á móti að orkan sé nýtt en það má ekki vera á kostnað einstakra landeigenda. Þetta er stórt mál og stefnir víða í hörð átök um þessar línulagnir við Landsnet. Til dæmis um Blöndulínu 3 í Hörgársveit og Skagafirði og Suðurnesjalínu 2.
Nokkrir jarðeigenda á Vatnleysuströnd hafa komið til fundar við stjórn LLÍ varðandi Suðurnesjalínu 2.
Landsnet hyggst leggja tvær 30m háar háspennulínur yfir eignarlönd landeigenda í sveitarfélaginu Vogum gegn vilja margra landeigenda og íbúa í sveitarfélaginu.
Háspennulínurnar koma til með að þvera löndin á viðkomandi stöðum, valda gífurlegri sjónmengun á svæðinu, hamla mjög framtíðar-nýtingu lands svo sem þróun byggðar, ferðaþjónustu og útivist og í raun verðfella sum eignarlöndin algjörlega!
Landeigendur hafa bent Landsneti á tvo aðra kosti: að leggja línuna í jörð sem Landsneti þykir of dýr en hinn kosturinn er að færa línurnar fyrir ofan byggðina upp í hraunið sem er ekki lengri leið. Þá hins vegar lenda þeir í kasti við náttúruverndarsamtök.
Landsneti finnst vænlegra að eiga við sundraða landeigendur, misfjársterka og þeir hafa líka langa reynslu í að kúga landeigendur til hlýðni. Ekki er ólíklegt að þetta mál endi fyrir dómstólum. Þá mun meðal annars reyna á 72. gr. stjórnarskrár um hvort almannahagsmunir krefjist þess að landið sé tekið eignarnámi og línan lögð á þessum stað.
Þetta mál getur hæglega orðið fordæmisgefandi hvað varðar mögulega málsókn landeigenda síðar í sambærilegum málum og því mjög mikilvægt að vanda til málsins nú. Stjórn samtakanna hefur ákveðið að veita landeigendum á Vatnsleysuströnd þá aðstoð sem við getum og 500.000 króna styrk í undirbúning að málsvörn.
Stjórn samtakanna sendi umsagnir um tvö frumvörp annars vegar um ,,veiðigjöld“ og hinsvegar um ,,stjórn fiskveiða“. Í báðum þessum frumvörpum er valtað yfir þau réttindi sem landeigendur eiga innan netalaga. Ég vil minna á álit Mannréttindadómstóls Evrópu frá 2. desember 2008 en þar segir orðrétt: ,,Ennfremur er það niðurstaða dómsins að réttur kæranda til þess að stunda fiskveiðar í netlögum úti fyrir sjávarjörðinni sem um ræðir hafi lögformlega stofnað til ,,eignar“ í skilningi 1. gr. samningsviðauka 1“
Í frumvarpi um stjórn fiskveiða var ekki gert ráð fyrir eða minnst einu orði á eignarrétt sjávarjarða í sjávarauðlindinni né heldur þeim verðmætum sem fólgin eru í uppeldisstöðvum ýmissa nytjastofna á grunnsævi innan netlaga.
Stjórn Landssamtaka landeigenda gerði þá kröfu, að við setningu nýrra laga um stjórn fiskveiða væri kveðið afdráttarlaust á um rétt landeigenda og að það væri skýrt kveðið á um að þau veiðileyfi sem gefin verða út til almennings veiti hlutaðeigandi ekki rétt til veiða í netlögum sem háðar eru einkaeignarrétti.
Vegna laga um veiðileyfagjöld lögðu Landssamtökin áherslu á, að við þessa lagasetningu væri gerð grundvallarbreyting á gildandi lögum um veiðigjald. Í stað þess að gjaldtakan væri áður ætluð til að standa undir kostnaði við rannsóknir og annað sem lýtur að verndun sjávarauðlindarinnar væri fyrirhugað að leggja einskonar skatt eða auðlindarentu á nýtingaraðila sem renna ætti til þeirra sem yfir réttindum sjávarins kunna að telja sbr. lið b. Í greinargerð.
Með vísan til þeirra eignaréttinda sem tilheyra sjávarjörðum innan netlaga, er ljóst að eigendur sjávarjarða eiga ótvírætt tilkall til hlutdeildar í auðlindarentu eftir að grundvelli gjaldtökunnar er breytt á þann veg sem frumvarpið ráðgerir.
Í því sambandi bentu landssamtökin á að innan netlaga eru mikilvæg hrygningarsvæði og uppeldisvæði sjávarfiska. Þessi svæði eru þáttur í viðgangi fiskistofna sem auðlindarenta byggir á. Vísað er til svipaðra sjónarmiða í lögum um lax og silungsveiði, þar sem hrygningarsvæði laxfiska eru sérstaklega metin til verðmætis í formi arðgreiðslna í veiðifélögum.
Í janúar síðast liðinn skipaði atvinnuvegaráðherra nefnd til að endurskoða ákveðnar greinar í jarða- og ábúðarlögum. Á nefndin að vinna hratt og skila af sér vinnu sinni 15. febrúar. Hvorki Landssamtökum landeigenda né Bændasamtökum var boðið að tilnefna fulltrúa í nefndina. Stjórn Landssamtakanna og stjórn Bændasamtaka hafa komið sér saman um að skipa 6 manna samráðshóp til að ræða hvort breytingar skuli gera á jarðalögum sem hefur þegar hafið störf.
Tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá hafa verið mikið í umræðunni allt frá síðasta aðalfundi. Stjórn samtakanna hefur gert alvarlegar athugasemdir við ýmsar greinar frumvarpsins og hafa þeir Óðinn Sigþórsson og Sigurður Jónsson haft veg og vanda að þeim umsögnum sem samtökin hafa sent frá sér um nýja stjórnarskrá. Þeir hafa mætt fyrir atvinnuveganefnd Alþingis til að fylgja málinu eftir.
Hér á eftir verður málþing um tillögur Stjórnlagaráðs og eignarréttinn. Þar verður m.a. komið ítarlega inn á þær athugasemdir sem við höfum gert við frumvarpið.
Mér finnst ekki hafa farið fram efnislegar umræður um tillögur stjórnlagaráðs og hvaða réttaráhrif þær hafa. Við teljum það rangt að berja tunnur, potta og pönnur þegar verið er að fjalla um grundvallarlög landsins. Við sem stöndum að þessu málþingi viljum djúpar rökræður um stjórnarskrána því stjórnarskráin er grundvallar plagg í réttarríki. Ný stjórnarskrá verður að vera afrakstur vandaðrar vinnu og á taka mið af ábendingum okkar bestu fræðimanna í stjórnlögum
Stjórn samtakanna hefur haldið 5 bókaða stjórnarfundi frá síðasta aðalfundi. Þau mál sem þarf að leysa skjótt eru leyst í gegnum síma. Í kjölfar kröfugerðar ríkisins í Húnavatnssýslum héldum við 2 fundi með landeigendum á svæðinu 19. október í haust. Við mættum gera meira af því að halda fundi með landeigendum en gott væri ef landeigendur hefðu frumkvæði að slíkum fundum. Við erum alltaf tilbúin að mæta.
Í Landssamtökum landeigenda eru nú rúmlega 500 félagsmenn og hefur farið fjölgandi undanfarið. Ég hef oft sagt áður en nú er það er hreinlega lífsspursmál fyrir samtökin að fjölga félögum til þess að gefa rekið alvöru hagsmunagæslu fyrir þá.
Góðir fundarmenn
Landssamtökin hafa nú starfað í sex ár. Þau hafa fest sig í sessi.
Þau fá til umsagnar flest þau mál sem landeigendur varða.
En betur má ef duga skal. Að okkur er hart sótt af pólitískum öflum sem vilja rýra eignarrétt okkar yfir eignarlöndum og lagahyggja er ráðandi á öllum sviðum. Það er allt á sömu bókina hvar sem borið er niður í þeim lagafrumvörpum sem nú eru til meðferðar á Alþingi- Í þeim öllum er verið að takmarka eða ganga á rétt landeigenda. Frumvarp að nýrri stjórnarskrá er þar ekki undanskilið. Á örfáum árum ætlar veikburða ríkisstjórn að hafa endaskipti á þjóðfélaginu og koma öllum sínum þjóðnýtingaráformum í lög. Það er okkar verkefni góðir félagar að koma í veg fyrir að þeim takist að útvatna eignarréttinn. Þar hafa samtökin verk að vinna og við skulum standa saman sem einn maður þegar að okkur er sótt.
Ég vil í lokin þakka stjórnarmönnum fyrir frábært samstarf og mikið starf fyrir okkur landeigendur á liðnu starfsári og ykkur góðir félagar fyrir mörg góð samskipti á liðnum árum.
Hofi 9. febrúar 2013
Örn Bergsson