Örn Bergsson: skýrsla stjórnar til aðalfundar
Landssamtaka landeigenda á Íslandi,
16. febrúar 2012
Fundarstjóri, góðir fundarmenn.
Landssamtök landeiganda á Íslandi hafa nú starfað í fimm ár. Samtökin hafa nú fest sig í sessi og sannað að þau eru mjög nauðsynleg landeigendum þar sem ríkisvaldið svífst einskis í tilburðum til lagasetningar til að rýra eignarrétt okkar. Heilu stjórnmálasamtökin lýsa því blákalt yfir að stefna beri að því að allt land skuli vera eign íslenska ríkisins. Ég mun í skýrslu minni fjalla um helstu mál sem hafa verið til umfjöllunar hjá stjórn samtakanna frá síðasta aðalfundi.
Staða þjóðlendumála
Staða þjóðlendumála í dag er þannig að óbyggðanefnd hefur lokið úrskurðum sínum á Tröllaskaga – svæði 7 norður – og eru nokkur mál þar á leiðinni til dómstóla. Á svæði 7 suður, í Skagafirði og í vestanverðum Eyjafirði, eru mál fyrir dómstólum. Eins og ykkur er sjálfsagt kunnugt var hægt á kröfugerð íslenska ríkisins í sparnaðarskyni en nú á að fara á stað aftur og hefur óbyggðanefnd veitt fjármálaráðherra frest til 31. mars til að skila inn kröfum um þjóðlendur á svæði 8 norður, sem eru Húnavatnssýslur.
Ég gat þess í skýrslu minni á aðalafundi í fyrra að til skoðunar væri að senda eitt mál til viðbótar til Mannréttindadómstóls Evrópu. Það mál varðaði Heiðamúla í Svalbarðshreppi en ekki reyndist svo áhugi fyrir því hjá eigendum jarðarinnar að fara þessa leið. Hins vegar ákvað stjórnin að styrkja Landeigendafélag Álftaness um 300 þúsund krónur þar sem þeir hafa ákveðið að fara með mál er varðar Álftanesskóga fyrir Mannréttindadómstólinn. Eitt mál er enn hjá dómstólnum sem hann hefur ekki tekið afstöðu til. Það varðar Mörtungu á Síðu og verður að viðurkennast að ég er ekki mjög bjartsýnn á að við komum fleiri málum til meðferðar hjá dómstólnum í ljósi þess sem á undan er gengið. Þessi stuðningur við Álftnesingana er til að undirstrika af okkar hálfu að við viðurkennum aldrei að sú sönnunarbyrði, sem Hæstiréttur hefur lagt á okkur, sé réttlátur dómur. Stjórn samtakanna hefur oft bent á að skjalasöfn eru ekki nægilega rannsökuð og skjöl, sem varða réttarhagsmuni, kunna að leynast þar. Á síðustu aðalfundum hefur stjórn boðað að hún myndi beita sér fyrir að ákvæði í þjóðlendulögin sem heimilar endurupptöku mála. Frumvarp um það efni er í smíðum og munum við í framhaldinu kanna hvernig koma megi því fram á Alþingi. Þótt úrlausnir í einstökum þjóðlendumálum hafi gengið á rétt okkar landeigenda undanfarin ár má ekki líta fram hjá því að barátta samtakanna hefur skilað árangri. Kröfugerðir eru hógværari nú en áður var. Þá hefur Hæstiréttur nálgast sjónarmið okkar meira en verið hefur, til dæmis unnust 6 mál á Þistilfjarðasvæðinu sem óbyggðanefnd hafði úrskurðað þjóðlendu. Hæstiréttur hefur hins vegar verið mesta hakkavélin hingað til í þessum málum og fjöldi mála tapast í Hæstarétti sem unnust fyrir óbyggðanefnd. Því megum við ekki leggja árar í bát í þessu máli. Það geta komið tækifæri síðar. Það eru nefnilega uppi vangaveltur um ýmis atriði um framkvæmd þessara mála sem eru okkur hagfeld. Og aldrei skulum við viðurkenna að það sé réttlátur dómur að taka þinglýstar eigur af fólki sem það hefur borgað skatta og skyldur af í á annað hundrað ár og engar athugasemdir verið gerðar við hvernig eignarhaldið var skráð. Margir dómar hafa byggst á því að landeigendur hafi ekki getað framvísað eignarréttarskjölum sem glatast hafa eða jafnvel skjölum sem hafa sannanlega orðið eldi að bráð í vörslu yfirvalda.
Fortíðar- og forræðishyggja í frumvarpi sjávar- og landbúnaðarráðherra
Á síðastliðnum vetri lagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram frumvarpsdrög um breytingar á jarða- og ábúðarlögum. Stjórn samtakanna lagðist hart gegn drögunum og sendi frá sér ýtarlega umsögn um þau til ráðuneytisins. Frumvarpið felur í sér grundvallarbreytinar á gildandi jarðalögum og er afturhvarf til svörtustu fortíðar- og forræðishyggju. Öll áhersla er lögð á matvælaframleiðslu en nýrri búgreinum og ýmissi þjónustustarfsemi, sem skaffað hafa fjölda nýrra starfa í sveitum, er hins vegar úthýst úr skilgreiningu hugtaksins landbúnaður og greinarnar gerðar réttlausar gagnvart jarðalögum. Kynnt var til sögunnar nýlegt hugtak „fæðuöryggi“, hefur mikið innihald og vísar til grunnþarfa mannsins. Þetta hugtak er hins vegar notað til að rökstyðja pólitískar forsendur frumvarpsins! Við sem höfum starfað í landbúnaði síðastliðin 30 ár þekkjum söguna. Mesta vandamál landbúnaðarins hefur verið offramleiðsla. Við höfum þurft að setja kvótakerfi á framleiðsluna og ríkið hefur sett milljarða króna í að kaupa upp framleiðslurétt af bændum til að stemma stigu við offramleiðslu búvara. Og nú á bara að spýta í lófana og koma matvælaframleiðslu á allar jarðir til að tryggja matvælaöryggi þjóðarinnar. Ef að þetta mikilvæga hugtak, matvælaöryggi, verður notað áfram með svipuðu sniði og hér er lýst verður það gengisfellt og dæmt til að hljóta sömu örlög og ríkisstjórnarfrasinn um „skjaldborg heimilanna.“
Í 6. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir byggingarskyldu lögbýla og fær sveitarstjórn heimild að taka jarðir leigunámi ef eigandi sinnir ekki byggingarskyldu. Sveitarstjórn er þá heimilt að ráðstafa jörðinni til allt að fimm ára. Efni þessarar frumvarpsgreinar er með öðrum orðum að umráðaréttur eigendans er tekinn af honum! Skipulag og forsjárhyggja af þessu tagi minna óneitanlega á gamla Sovét og hlýtur að höggva nærri 72. greinar stjórnarskrár um friðhelgi eignaréttarins.
Síðan kemur frumvarpsgrein með fyrirsögninnni „innlausn“. Þar er gert ráð fyrir að þar sem skiping jarða hefur átt sér stað, og bú er ekki rekið á útskiptum jarðarhluta, geti sá sem rekur bú tekið eignarhluta þess sem ekki rekur bú eignarnámi. Hér er á ferðinni aðför að öllum þeim sem á útskiptum jarðarhlutum búa og reka aðra atvinnustarfsemi á býli.
Síðan er höfuðið bitið af skömminni með grein sem kveður á um að sami einstaklingur eða lögaðili skuli „ekki vera eigandi að öllu leyti eða að hluta að fleiri lögbýlum en þremur“. Þannig er í dag að margir þurfa fleiri en eina jörð til að reka nútíma búskap og fleiri en þrjú býli. Um miðja síðustu öld var mörgum jörðum skipt upp í fleiri lögbýli sem miðaðist við sjálfsþurftarbúskap þeirra tíma, 2-4 kýr og 200 kindur, búskap sem ég og margir af minni kynslóð ólust upp við.
Markmið þessarar lagasetningar virðist fyrst og fremst vera að hverfa aftur til fortíðar og verðfella jarðir. Með því eru margir eldri bændur, sem bregða búi, gerðir að fátæklingum eins og áður var. Og hvað með hina margumtöluðu jarðasöfnun? Er hún raunverulegt vandamál? Hverjir eru að safna jörðum? Er til nema eitt dæmi sem varð til í efnahagsbólunni. Er það tiltekna félag ekki komið í eigu Landsbankans og því allar líkur á að eignarhaldið á jörðunum dreifist að nýju? Ég held að vísu að öll þessi vitleysa verði nú aldrei að lögum en hún sýnir samt hve langt sumir vilja ganga til að innleiða hér gamaldags sósíalisma.
Málefni landeigenda og Vegagerðarinnar
Stjórn samtakanna átti fund með Hreini Haraldssyni vegamálastjóra og hans mönnum á haustdögum. Við óskuðum eftir þessum fundi til að ræða samskipti Vegagerðarinnar og landeigenda. Þar var rætt um verklagsreglur Vegagerðarinnar gagnvart landeigendum og var niðurstaðan sú að Vegagerðin sendi þær samtökunum endurskoðaðar til umsagnar. Í vegalögum frá 2007 er nýtt og varasamt ákvæði um að Vegagerðin verðui lögformlegur eigandi að vegsvæði og tilheyrandi landsvæði fái stöðu sérstakrar fasteignar með fasteignanúmeri í þjóðskrá. Stjórnin telur að eigi þetta fyrirkomulag að vera til frambúðar þurfi að skýra réttarfarslega stöðu viðkomandi landsvæða og hvaða áhrif þetta hafi á viðkomandi jarðir. Þessu voru forsvarsmenn Vegagerðarinnar sammála. Ákvæðið í vegalögunum er vægast sagt óheppilegt og vekur upp margar spurningar og álitaefni og því var reyndar laumað inn í vegalögin að danskri fyrirmynd. Lögfræðingur Vegagerðarinnar viðurkenndi að þetta hafi verið gert að hans tillögu. Einnig var rætt um þau tilvik þegar land er tekið eignarnámi og mikilvægi þess að samningaleiðin sé reynd til þrautar áður en til eignarnáms kemur. Það er okkar skoðun að oftar væri hægt að ná samkomulagi ef Vegagerðin færi með meiri sanngirni og virðingu gangvart landeigendum en hún gerir í dag. Við gagnrýndum líka að Vegagerðin freistar þess í sífelldum málaferlum fyrir dómstólum að ná fram lækkun eignarnámsbóta í stað þess að sætta sig við dæmdar eignarnámsbætur. Við skoruðum á forystumenn Vegagerðarinnar að hafa samráð við landeigendur með góðum fyrirvara, þegar framkvæmdir eru fyrirhugaðar, svo landeigendur upplifi ekki að þeir séu sniðgengnir og réttur þeirra fótum troðinn. Þessi fundur var góður en tíminn einn leiðir í ljós hver árangurinn verður.
Óviðunandi drög að nýrri stjórnarskrá Íslands
Samtökin hafa gert athugasemdir við tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland og sent umsögn til stjórnlaganefndar Alþingis. Stjórnarmenn mættu fyrir nefndina til að fylgja eftir athugasemdum sínum. Ýmsir helstu fræðimenn á sviði stjórnlagaréttar hafa gert alvarlegar athugasemdir við tillögu stjórnlagaráðs og er málþing landeigenda hér að loknum aðalfundinum innlegg okkar í umræðuna.
Ég mun hér gera grein fyrir því helsta sem stjórn samtakanna gerði athugasemdir við. Fyrirliggjandi drög að stjórnarskrá ganga mjög gegn hagsmunum okkar. Við leggjumst því eindregið gegn hugmyndum um að tillagan verði borin undir þjóðaratkvæði í óbreyttri mynd án þess að vandað sé betur til verka. Þá teljum við að fara eigi varlega í að umbylta núgildandi stjórnarskrá.
Stjórnarskrá á að vera hnitmiðuð í orðalagi og inntak einstakra greina hennar skýrt og laust við málskrúð. Þá teljum við það mikinn galla á framkominni tillögu að ekki virðist hafa farið fram stefnumarkandi umræða í stjórnlagaráðinu um hvernig skilja beri á milli ákvæða sem betur eiga heima í almennri löggjöf annars vegar og í stjórnarskrá hins vegar. Ruglings um þessi atriði gætir um of í fyrirliggjandi drögum.
Við gerum einkum alvarlegar athugasemdir við þrennt í drögum stjórnlaganefndar.
- Náttúruauðlindir eru settar undir mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og ekki er að fullu tekið tillit til gildandi löggjafar um eigarrétt á auðlindum. Þá er enginn skilamunur gerður á sjávarauðlindinni annars vegar og öðrum auðlindum, sem nú eru háðar fullum eignarrétti að lögum, hins vegar.
- Í grein um náttúruauðlindir er hugtakið „þjóðareign“ notað þrátt fyrir það sé marklaust hugtak í þessu samhengi, eins og m.a. kom fram á síðasta aðalfundi okkar. Þjóðin geti ekki verið skráður eigandi að auðlindum. Það er íslenska ríkið sem fer lögum samkvæmt í umboði þjóðarinnar með eignarhald landa og landsréttinda sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Síðan er þarna hin furðulega málsgrein þar sem segir orðrétt; „Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tilteknu dýpi frá yfirborði jarðar“. Þessi málsgrein fer í bága við 72. grein um friðhelgi eignarréttarins í gildandi stjórnarskrá landsins. Sumir stjórnlagafræðingar hafa gengið svo langt segja að túlka megi nefnda málsgrein sem heimild til að þjóðnýta þessar auðlindir.
- Í ákvæðum um svokallaðan almannarétt er almenningi veittur stóraukinn réttur til umferðar um eignarlönd og aðgangur að undirbúningi ákvarðana, sem hafa áhrif á umhverfi og náttúru og heimild til að leita hlutlausra úrskurðaaðila. Strangt til tekið öðlast almenningur kærurétt ef ég fer út að plægja eða velti við einhverjum steinum á landareigninni. Með þessari grein getur einstaklingur, sem á engra sérstakra hagsmuna að gæta varðandi ákvörðun, haft áhrif á leyfisveitingu til einstaklinga sem ætla að framkvæma í eignarlandi sínu á grundvelli hins víðtæka almannaréttar sem greinin veitir honum.
Umhverfisbákn ríkisins
Við höfum í vaxandi mæli áhyggjur af því bákni sem er að byggjast upp innan umhverfisráðuneytisins. Endalausar laga- og reglugerðarbreytingar eru í undirbúningi sem allar hníga í þá átt að allir skapaðir hlutir verði bannaðir eða háðir leyfisveitingum sem Umhverfisstofnun verði heimilt að taka gjald fyrir. Í farvatninu eru breytingar á lögum um náttúruvernd. Við höfum mótmælt ýmsum þeim breytingum sem þar eru boðaðar og teljum að tillögur til breytinga, sem nú eru til kynningar í frumvarpsformi, séu íþyngjandi fyrir landeigendur og gangi í raun yfir almenna skynsemi. Þannig er í drögunum á mörgum stöðum fjallað um leyfisveitingar opinbera aðila til umferðar um eignarland og til ýmiss konar starfssemi á eignarlöndum en hvergi vikið að rétti landeigendanna sjálfra til nýtingar landsins í sína þágu. Stjórn samtakanna telur þá ráðagerð, sem fram kemur í frumvarpinu um að lögfesta fullkomið bann við akstri vélknúinna ökutækja á eignarlöndum utan vega, fráleita og fela í sér mikla skerðingu á eignaréttarinum. Svo á að bjóða landeigendum að ráðherra geti með reglugerð náðarsamlegast gefið okkur takmarkaðan umferðarrétt um eigin landareignir! Allir sjá að slíkt er algjörlega óviðunandi enda háð pólítískum vindum hverju sinni. Við höfum hins vegar ekkert á móti því að settar verði skýrar og einfaldar reglur um umferð almennings um landið og umferð vélknúinna ökutækja óviðkomandi aðila verði með þessum hætti takmörkuð um eignarlönd og þjóðlendur.
Fráleit lagabreyting um bann við svartfuglsveiði
Eitt mál hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum síðustu vikur en það er bann við veiðum á 5 tegundum af svartfugli. Landssamtök landeiganda hafa verið kölluð til fundar um málið í umhverfisráðuneytinu. Mun umhverfisráðherra leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um veiðar á villtum fuglum og spendýrum á næstu vikum. Drög af frumvarpinu eru nú til kynningar hjá ráðuneytinu. Þetta mál er angi af stærra máli að mínu mati og liður í að öll hlunnindanýting verði háð leyfisveitingum. Þetta mun nauðsynlegt, eins og fram kemur í rýniskýrslu um fuglatilskipun ESB, til að laga íslenska löggjöf að ESB-löggjöfinni vegna umsóknar okkar að Evrópusambandinu. Það kemur beinlínis fram að stofnanir ráðuneytisins gera tillögu um þessa lagabreytingu til að íslensk löggjöf samræmist ESB reglunum. Ekkert í þessu máli kallar hins vegar á slíkt bann. Rannsóknir á þessu sviði eru ófullkomnar og engar upplýsingar liggja fyrir um að nýting hlunninda sé valdi svæðisbundinni fækkun í lundastofninum.
Við leggjum áherslu á að leitað verði samninga við landeigendur um nýtingu á þessum hlunnindum, sé þess þörf. Það er algjörlega fráleitt að banna alla nýtingu á svartfuglshlunnindum meðan ríkisvaldið sinnir ekki lögboðnum skyldum við að halda varginum sem öllu eyðir í skefjum. Þar á ég að sjálfsögðu við mink og tófu.
Andlitslyfting heimasíðu LLÍ
Heimasíða samtakanna hefur fengið nýtt útlit. Með breytingunum vonumst við til að hún geti orðið góður upplýsingarmiðill fyrir félagsmenn. Ég vil minna á að fréttir um starf samtakanna og umsagnir um lagafrumvörp er að finna á heimasíðunni, landeigendur.is.
Stjórn hefur haldið sjö bókaða stjórnarfundi frá síðasta aðalfundi. Auk þess hafa stjórnarmenn verið kallaðir á marga fundi í stjórnkerfinu og fylgt eftir ályktum og stefnu samtakanna.
Pólitískur gerningavetur
Það eru óvissutímar á Íslandi. Stjórmálamönnum er tamt að tala um „nýja Ísland“. En hvað er þetta nýja Ísland? Er það þjóðfélag sem byggist á virðingu fyrir lögum og réttindum þegnanna eða á tunnusláttur búsáhaldabyltingarinnar og framkoma þeirra sem verst létu að gefa tóninn?
Því miður virðast þau stjórnmálaöfl, sem nú fara með völd í landinu, vera einbeitt í að nýta takmarkað pólitískt umboð sitt til að umbylta þjóðfélaginu. Stjórnarráðinu er umturnað og lagasetningarvaldi grímulaust beitt í þágu hugsjóna þeirra sem ráða þar ríkjum. Meira að segja skal bylta allri stjórnarskránni án þess að um slíkt sé sköpuð nokkur sátt í þjóðfélaginu. Í svona umróti höfum við verk að vinna og þurfum að leggja okkar af mörkum til þess að land og þjóð komi heil undan þessum pólitíska gerningavetri.
Ég vil að lokum þakka stjórnarmönnum fyrir ánægjulegt samstarf á liðnu starfsári og ykkur góðir félagar fyrir margvísleg og góð samskipti
/Skýrslu stjórnar flutti Örn Bergsson, formaður LLÍ