Skýrsla stjórnar fyrir árið 2013

Skýrsla stjórnar 2013 flutt á aðalfundi, 20. febrúar 2014

Fundarstjóri, góðir fundarmenn.

Landssamtök Landeigenda eru nú að hefja sitt áttunda starfsár. Þetta eru því ung samtök en hafa á þessum stutta tíma sannað gildi sitt fyrir landeigendur. Samtökin hafa veitt harða mótspyrnu gegn lagasetningu löggjafans sem undanfarin ár hefur í vaxandi mæli seilst til að rýra og afnema réttindi landeigenda.

Ég mun nú fara yfir þau helstu mál sem hafa verið á borði stjórnar á liðnu ári.

Kröfugerð á svæði 8

Í desember síðastliðnum lagði fjármálaráðherra fram kröfugerð á svæði 8, í vestur Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Kröfugerðin veldur miklum vonbrigðum og gengur lengra en kröfugerð ríkisins í Skagafirði og Húnavatnssýslum. Farið er langt inn á eignarlönd jarða þrátt fyrir að heimildir um eignarrétt megi rekja um margra alda skeið og úrlausnir dómstóla um eignarrétt að engu hafðar. Engu virðist skipta  að fallið hafa yfir 60 Hæstaréttardómar í þjóðlendumálum. Samt er úilokað að segja til um hver niðurstaðan verði í þessum málum því alltaf eru niðurstöður dómstóla að koma á óvart.

Í þessu sambandi vil ég nefna dóminn um Bleiksmýrardal í Þingeyjarsveit sem kveðinn var upp í haust, en þar hirti ríkið landið þrátt fyrir að hafa selt það með gögnum og gæðum árið 1918 auk þess sem fyrir lá eignarréttardómur Landsyfirréttar frá því á 19. öld sem notaður hefur verið í kennslu í eignarétti við Háskóla Íslands. Eins og ég gat um í skýrslu minni til aðalfundar í fyrra höfum við unnið að því að ná fram breytingum á Þjóðlendulögunum sem heimila endurupptöku mála ef ný gögn koma fram sem sanna eignarrétt á landi sem dæmd hefur verið þjóðlenda. Fyrir liggja drög að breytingunum í frumvarpsformi og höfum við beðið eftir fundi með forsætisráðherra um þessi mál en breyta þarf þjóðlendulögunum á þessu ári þar sem ekki hefur tekist að skera úr um þjóðlendur á öllu landinu innan þeirra tímamarka sem lögin kveða á um.

Stjórnarskrármálið, breytingar á náttúruverndarlögum og vatnalögum

Eftir aðalfundinn í fyrra voru þrjú mál sérstaklega umfangsmikil í starfi samtakanna en það voru stjórnarskrármálið, frumvarp að nýjum náttúruverndarlögum og frumvarp um breytingar á vatnalögum.

Á síðasta aðalfundi héldum við málþing um eignarétt og stjórnarskrána. Í erindi Karls Axelssonar, hæstaréttarlögmanns, kom fram að þáverandi tillögur að nýrri stjórnarskrá gæfi löggjafanum heimild að þjóðnýta ákveðin náttúruverðmæti- og auðlindir sem væru í einkaeigu í dag. Karl gagnrýndi einkum 32. grein um menningar og náttúruverðmæti og 34. grein um auðlindir og þjóðareign. Í þessum greinum að nýrri stjórnarskrá væru til dæmis vatnsréttindi gerð óljós og eignarréttur sjávarjarða að netalögum afnumin. Í 34. grein var ákvæði sem hljóðar svo ,, Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar“ Með þessu ákvæði væri verið að gera ákveðnar breytingar á eignaréttindum að mati Karls og löggafanum gefið færi á að þjóðnýta auðlindir í einkaeigu. Eftir málþingið vöktum við athygli þingmanna á erindi Karls sem varð til þess að sjónarmið okkar um eignarréttarákvæði stjórnarskrár komust á dagskrá. Sem betur fer eru þessar tillögur dauðar í bili.

Nú hefur verið skipuð ný stjórnarskrárnefnd undir forystu Sigurðar Líndal og munum við að sjálfsögðu fylgjast með þeirri vinnu.

Á síðasta vetri lagði umhverfisráðherra fram frumvarp að nýjum náttúruverndarlögum. Lögin voru mjög umdeild og voru harðvítugar deilur í þinginu um þau. Lögin voru samþykkt og eiga að taka gildi hinn 15. apríl næstkomandi. Margir þingmenn lýstu því yfir að ef breyttur meirihluti skapaðist á Alþingi, myndu þeir beita sér fyrir afnámi laganna. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að stefnt sé að því að afnema lögin. Stjórn samtakanna fagnar afnámi laganna en við mótmæltum harðlega þessum lögum á sínum tíma ásamt mörgum öðrum félagasamtökum. Því var haldið fram að víðtækt samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila við smíði laganna. Við vorum vissulega kallaðir fyrir upp í Umhverfisráðuneyti en það var bara til málamynda því ekkert var gert með það sem við höfðum fram að færa. Frumvarpið var sérsmíðað fyrir þann hóp manna sem telur sig hafa einkarétt á skoðunum á náttúruvernd á Íslandi.

Núverandi Umhverfisráðherra hefur boðað að samið verði nýtt frumvarp um náttúruvernd sem miði að því að meiri sátt verði um málið. Við fögnum því og lýsum okkur tilbúna samvinnu um þennan mikilvæga málaflokk.

Þriðja málið sem kom upp í fyrravetur varðaði breytingar á vatnalögum og lögum um rannsóknir á auðlindum í jörðu og var kallað ,,samræming reglna um vatnsréttindi“.

Í frumvarpinu var ráðgert að afnema með lagasetningu fullkominn og beinan eignarétt landeiganda að auðlindinni sem grunnvatn er en sá eignarréttur er tryggður með óyggjandi hætti í núgildandi lögum. Þegar frumvarpið var lagt fram var það sagt til samræmingar reglna um vatnsréttindi. Það útaf fyrir sig vekur furðu þar sem afleiðing fyrirhugaðrar lagasetningar var einhliða afnám fullkominnar eignar landeigenda á auðlindinni grunnvatn. Málið var flutt af þáverandi iðnaðarráðherra.

Seint á miðvikudagskvöldi í framsöguræðu og svörum ráðherra í umræðum Alþingis kom fram að hér væri einungis um einfalda samræmingu að ræða og því málið einfalt og fljót afgreitt. Þingmenn kveiktu ekki á perunni hvað hér var á ferðinni. En Óðinn, félagi minn og stjórnarmaður í LLÍ, fylgdist með umræðunum og hann kveikti á perunni. Hann hafði samband við Karl Axelsson hæstaréttarlögmann og bar undir Karl hvort hans skilningur á málinu væri réttur, þ.e. að lagsetningin hefði í för með sér afnám eignarréttar landeigenda á grunnvatni, sem Karl staðfesti. Óðinn hafði sambandi við mig á fimmtudagsmorgun og vorum við sammála um að stoppa þyrfti málið. Við höfðum samband við þingmenn í atvinnuveganefnd Alþingis og gerðum þeim grein fyrir málinu en þeir höfðu ekki fjallað um málið. Fundur var í atvinnuveganefnd seinna þennan dag og kom þá í ljós að afgreiða átti málið úr nefnd á þessum fundi. Ekki átti að leyfa umsagnir um frumvarpið.

Með harðfylgi og hálfgerðum illindum tókst þingmönnum að knýja fram að leitað yrði eftir umsögnum. Aðeins var veittur 4 daga umsagnarfrestur, þar af voru aðeins 2 virkir dagar. Þingmaður hafði samband við mig um kvöldið og aðvaraði mig um að við hefðum skamman tíma. Í framhaldi var ákveðið að Landssamtökin og Landssamband veiðifélaga sendu inn sameiginlega umsögn um frumvarpið. Umsögnin var samin yfir helgina og henni skilað á mánudeginum eftir. Við vorum síðan kallaðir á fund atvinnuveganefndar á þriðjudagsmorgun og gerðum þeim grein fyrir okkar máli. Þá hafði enginn umsögn borist nema okkar. Það hafði enginn haft tíma til að skoða málið hvað þá að semja umsögn. Eftir að þingmenn áttuðu sig á málinu hófust harðvítugar deilur um málið sem enduðu með því að þetta mál var eitt af þeim grundvallarmálum sem samið var um í þinglok að færu ekki í gegn. Þetta mál er gott dæmi þess að við verðum að vera vakandi fyrir öllum lagasetningum sem hugsanlega varða okkar hagsmuni.

Gjaldtaka á ferðamannastöðum

Gjaldtaka á ferðamannastöðum og náttúrupassi hefur verið mikið til umræðu undanfarin misseri. Í sumar sem leið var umræðan sú að gjaldtaka af ferðamönnum yrði gerð í samráði við samtök ferðaþjónustu. Landeigendur voru ekki nefndir á nafn. Í framhaldi af þessari umræðu óskuðum við eftir fundi með Ragnheiði Elínu Árnadóttur, ráðherra, og gerðum henni grein fyrir því að ýmsir af fjölsóttum ferðamannstöðum væru í einkaeigu. Því gæti ríkið ekki selt aðgang að einkalöndum í gegnum náttúrupassa nema með samkomulagi við viðkomandi aðila. Í þessari vinnu má ekki gleyma því að fjölmargir ferðamannastaðir á Íslandi eru undirorpnir eignarétti annara aðila en ríkisins þannig að stjórnvöld og almenni löggjafinn hafa ekki ráðstöfunarrétt á landinu með neinum sérstökum hætti og ekki að sjá að upp séu áform um lagasetningu í þá veru að gera ríkisvaldinu mögulegt að taka þessa staði eignarnámi.

Ráðherra tók okkur vel, sagðist vera mikil einkaréttar manneskja, hún skildi okkar sjónarmið vel og vildi ekki ganga með neinum hætti á hin helga rétt fólks, þ.e. eignarréttinn. Í framhaldinu bauð hún okkur að við skipuðum fulltrúa í samráðshóp um gjaldtöku af ferðamönnum, og er Sigurður Jónsson, stjórnarmaður, okkar fulltrúi.

Ferðamennskan er orðin ein af þremur mikilvægustu atvinnugreinum á Íslandi og hafa meðal annars blásið lífi í deyjandi byggðir í sveitum landsins. Það sem ferðaþjónustan telur sig vera að selja er meðal annars óspillt náttúra og víðerni. Hvað verður þetta óspillt lengi með sama áframhaldi. Margir staðir eru því miður í niðurníðslu og ekkert er að gert! Ýmsir hagsmunaaðilar berjast síðan gegn allri gjaldtöku. Hvað ætla menn að selja eftir 3 til 4 ár með sama áframhaldi? Hagsmunir ferðaþjónustu eiga að fara saman við vernd ákveðinna svæða og skynsamlega útfærða gjaldtöku.

Stjórn samtakanna telur að gjaldtaka á fjölmennustu ferðamannastöðum sé löngu tímabær en síðan verði komugjald eða náttúrupassi sem fjarmagni minni staði.

Um þessi mál verður fjallað á málþingi hér á eftir svo ég ætla ekki að fjalla meira um það í bili.

Háspennulínur í jörðu

Síðastliðið haust fór fram mikil umræða um kostnað við að leggja háspennulínur í jörðu. Uppi eru harðar deilur um lagningu Blöndulínu og Suðurnesjalínu 2 eins og ég gat um í skýrslu minni í fyrra. Landeigendur vilja fá þessar línur í jörð þar sem þær eiga að liggja í túnfæti hjá þeim eða fara yfir verðmæt heimalönd þeirra. Hér er um að ræða mikið umhverfismál og þarf engan að undra það að fólk vilji ekki fá 30 metra há möstur í túngarðinn hjá sér. Deilt hefur verið um kostnað annars vegar um hefðbundna háspennulínu eða jarðstreng, hefur Landsnet talið að jarðstrengur væri ekki framkvæmanlegur vegna kostnaðar. Bændur í Skagafirði ásamt fleiri aðilum ákváðu að láta verkfræðistofu í Kanada gera hagkvæmnismat á kostnaði jarðstrengja. Ekki var hægt að láta vinna slíka greiningu hérlendis vegna þess að flestar verkfræðistofur sem eru til þess bærar eru að starfa fyrir annaðhvort Landsnet eða Landsvirkjun. Landssamtökin styrktu bændur í Skagafirði um 200 þúsund krónur í verkefnið. Niðurstaðan úr þessari hagkvæmnisrannsókn var sú að jarðstrengir eru mun ódýrari heldur en haldið hefur verið fram og eru sífellt að verða ódýrari vegna tækniframfara. Jarðstrengir eru því, þvert á það sem haldið hefur verið fram, raunhæfur kostur þar sem línur þurfa að liggja um viðkvæmt land.

Stjórn samtakanna hafa haldið sex bókaða stjórnarfundi frá síðasta aðalfundi en flest mál eru leist með símtölum og tölvupóstum milli funda.

Góðir fundarmenn!

Landssamtök landeigenda hafa svo sannarlega verk að vinna. Sífellt er sótt að eignarétti okkar með lagasetningu sem rýra eignarrétt okkar. Tilraun síðustu stjórnar til að breytingar á vatnalögunum er þörf áminning til okkar hvað það getur kostað að sofa á verðinum. Talsmenn hins svokallaða almannaréttar eru sífellt að sækja í sig veðrið. Því er það okkur algjör nauðsyn að fylgjast mjög vel með setningu laga og reglugerða sem varða hagsmuni okkar. Samtök okkar eru nú búin að ná þeirri stöðu að löggjafinn leitar til okkar varðandi umsögn um mörg þingmál og jafnframt leita stjórnvöld til okkar þegar landsréttindi eru til meðferðar. Við sem vinnum að hagsmunamálum ykkar landeigendur góðir, gerum okkur best grein fyrir mikilvægi þess að efla þessi samtök. Hér gildir hið fornkveðna að sameinuð getum við best staðið gegn því að réttindi okkar verðu þynnt út eða borin fyrir borð.  En við þurfum líka að vera meðvituð um að það því fylgir ábyrgð að eiga land. Okkur ber skylda til að skila landinu jafn góðu eða betra til komandi kynslóða heldur en við tókum við því.

Ég vil í lokin þakka stjórnarmönnum fyrir frábært samstarf og mikið óeigingjarnt starf fyrir okkur landeigendur á liðnu starfsári, og ekki síður ykkur góðir félagar fyrir mörg góð samskipti á liðnum árum.

F.h. stjórnar LLÍ
Örn Bergsson