Skýrsla stjórnar fyrir árið 2014

Skýrsla stjórnar 2014 flutt á aðalfundi, 13. febrúar 2015

Fundarstjóri góðir fundarmenn!

Landssamtök landeigenda hafa nú starfað í 8 ár, fyrsta verkefni samtakannna var að reyna að snúa ofan af þeim óbilgjörnu kröfum ríkisins til þjóðlenda. Samtökin voru stofnuð um þjóðlendumálið og áttu í upphafi eingöngu að einskorða sig við það mál. Hins vegar kom fljótt í ljós að okkur fór að berast ýmis hagsmunamál landeigenda til umfjöllunar og var þá ákveðið að breyta samþykktum samtakanna í þá veru að gæta eignaréttar landeigenda í víðum skilningi. Markmiðið hefur verið að LLÍ verði viðurkennt sem hagsmunasamtök sem opinberir aðilar leita til með umsagnir varðandi lagasetningar og reglugerðir eða umsögn um framkvæmdir sem varða hagsmuni landeigenda. Það má segja að þessu markmiði hafi verið náð.

Staða þjóðlendumála er í dag þannig að ríkið á eftir að lýsa kröfum í Vestfirði, Dali, Snæfellsnes og Austfirði. Mál í Borgarfirði hafa verið flutt fyrir Óbyggðanefnd fyrir stuttu síðan og úrskurður Óbyggðarnefndar í Húnavatnssýslum var kveðinn upp nú í desember. Síðan eru mál fyrir Hæstarétti í Skagafirði. Samtökin fengu því ekki framgengt á sínum tíma að fá þjóðlendulögunum breytt í þá veru að ríkið hefði sönnunarbyrðina fyrir þjóðlendu kröfum sínum. Hins vegar höfum við allt frá árinu 2012 verið með það í farvatninu að fá endurupptöku ákvæði í lögin, það er að í þjóðlendulögin verði sett ákvæði sem heimili endurupptöku finnist ný gögn sem sanna eignarrétt að landi sem dæmt hefur verið þjóðlenda.

Við áttum fund með forsætisráðherra núna 23. janúar um málið en þjóðlendulögin heyra undir hann. Áður höfðum við fundað með lögfræðingum ráðuneytisins til að undirbúa fundinn með forsætisráðherra. Ljóst er að embættismennirnir eru á móti breytingunum og benda þeir á ný lög um dómstóla, lög frá 20. febrúar 2013. Í þeim lögum er sett inn endurupptökunefnd sem er sjálfstæð stjórnsýslustofnun sem tekur ákvörðun um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmáls sem dæmt hefur verið í héraði eða Hæstarétti. Þessu erum við ekki sammála og teljum að þjóðlendumálin séu þannig mál að það þurfi sérstakt ákvæði inn í lögin sem rýmki endurupptöku, í ljósi þeirra þungu sönnunarbyrði sem hvíli á landeigendum. Það er að þeir þurfi að rekja eignarhaldið frá landnámi til dagsins í dag. Við áttum góðan fund með forsætisráðherra en ekki er ljóst á þessari stundu hvort árangur næst í þessu máli.

Í farvatninu er gildistaka nýrra náttúruverndarlaga, hefur gildistöku þeirra tvívegis verið frestað. Þau eru nú til endurskoðunar í umhverfisráðuneytinu og á að reyna að ná meiri sátt um lögin. Við eigum fulltrúa í nefnd sem vinnur að þessari endurskoðun. Við höfum gert alvarlegar athugasemdir við lögin, sérstaklega við þær greinar sem fjalla um utanvegarakstur og svokallaðan almannarétt.

Við leggjum til breytingar í þá veru að draga úr afskiptum ríkisvaldsins og stofnana ríkisins af meðferð eignarlanda hvort sem þau eru undirorpin eignarrétti einstaklinga, sveitarfélaga eða ríkisins. Bent er á að fjölmargir af vinsælustu ferðamannastöðum landsins eru að öllu eða einhverju leyti í eigu ríkisins og ríkinu er þannig heimilt í skjóli eignaréttar síns að stjórna umferð um lönd sín og að sjá til þess að þessi lönd verði ekki fyrir átroðningi. Getur ríkið haft arð af nýtingu þessara svæða til ferðamennsku ef svo ber undir. Eins og fram hefur komið hjá fyrrverandi umhverfisráðherra Sigurði Inga er mikilvægt að tryggja almannarétt en huga verður jafnframt að hagsmunum landeigenda. Ekki má gleyma þeirri staðreynd að afar mikil breyting hefur orðið á ferðamennsku frá þeim tíma þegar hugmyndir um almannarétt komu fyrst fram. Ferðamennska og atvinnustarfsemi í kringum hana hefur aukist gríðarlega nú á allra síðustu árum og er ferðamannaiðnaðurinn orðin að stórri og arðbærri atvinnugrein. Svo virðist að við setningu laganna nr. 60/2013 hafi ekki verið tekið tillit til þessa heldur hafi hin forna hugsun um frjálsa för Íslendinga um land sitt verið ríkjandi. Í þeirri endurskoðun laganna sem nú fer í hönd verður að taka tillit til þessara breyttu aðstæðna og þá sérstaklega þess að ferðaþjónustan er farin að nýta land í vaxandi mæti og gildir þá einu hvort það land er einkaeign eða í ríkiseigu. Segja má að fyrirtækin selji nú aðgang að landi með einum eða öðrum hætti með þvi að flytja þangað hópa ferðamanna en greiðslan er innheimt í fargjaldinu. Setja þarf skýr og afdráttarlaus ákvæði um heimildir landeigenda til þess að vernda land sitt fyrir slíkum ágangi.

Landeigendur telja jafnframt í ljósi reynslunnar að ekki sé heppilegt að Umhverfisstofnun (UST) fái að leika lausum hala og setja landeigendum skorður þegar það hentar fræðingum og pólítíkusum. Í þeim breytingum á nýju lögunum sem í hönd fara er nauðsynlegt að draga úr ríkisforsjá og möguleikum ríkisins til að ganga nærri rétti manna til ráðstöfunar og meðferðar á lendum sínum. Lagt er til að frumkvæði að verndaraðgerðum og eftirlit verði skilið að sem kostur er, enda afar óheppilegt að það sé í höndum sama aðila. Í lögum nr. 60/2013 sem ekki tóku gildi var vald Umhverfisstofnunar aukið verulega og stofnunin sett bæði í sæti þess sem gerir kröfur, fylgir kröfunum eftir og úrskurðar stofnunin síðan jafnframt sjálf um kröfurnar. Slíkt fyrirkomulag er beinlínis til þess fallið að valda mismunun og jafnvel ýta undir spillingu. Tryggja þarf jafnræði þeirra sem koma að nýtingu og meðferð lands hvort sem um er að ræða land í eigu ríkis eða einkaaðila. Auðvelt er fyrir ríkið að beita sér og hafa með höndum virkt eftirlit og eftir atvikum gjaldtöku ef það kýs, í skjóli eignarréttar síns í stað þess að setja almennar lagareglum um takmarkanir sem taki til allra staða. Gæta ber þess að sá sem hefur ríkustu hagsmunina af verndun og góðri umgengni um land hlýtur að vera eigandi þess.

Það er afar óeðlilegt og stangast á við eignarheimildir landeigenda að þeim sjálfum og/eða mönnum á þeirra vegum sé bönnuð för um sitt eigið land með þeim hætti sem kveðið er á um í lögunum og finna má raunar jafnframt í núgildandi lögum (17. gr. 1. mgr. 44/1999). Þannig stangast það á við stjórnarskrárvarinn eignarrétt landeiganda að honum sé bannað að fara um land sitt á vélknúnu ökutæki. Lagt er til að eignaréttur landeigandans verði virtur með þeim hætti að hann hafi eitthvað um það að segja hverjir aki á landi hans utan vega. Skýrt er tekið fram að þessi heimild landeigandans yrði háð því skilyrði að umferðin valdi ekki spjöllum á landinu.

Við höfum fylgt þessu eftir með viðtölum við þingmenn og komum inn á þessi atriði með forsætisráðherra.

Mikið hefur verið rætt um gjaldtöku af ferðamönnum síðastliðið ár til að fjármagna vernd og uppbyggingu ferðamannastaða. Skiptar skoðanir eru um hvaða leiðir skuli fara.

Nefndar hafa verið leiðirnar: Náttúrupassi, komugjald, gistináttagjald og gjaldtaka beint inn á helstu ferðamannastaði. Stefna stjórnar LLÍ hefur verið sú að þeir sem njóta eiga að borga. Við tókum þátt í 25 manna starfshópi á vegum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis um leiðir í gjaldtöku til að fjármagna uppbyggingu og vernd ferðamannastaða. Það segir sig sjálft að ekkert kom út úr þessum 25 manna starfshóp.

Það hefur verði mín skoðun að það þarf bara þrjá aðila til að koma sér saman um gjaldtöku, uppbyggingu og vernd ferðamannastaða. Það eru eigendur staðanna sem eru ríki, sveitarfélög og landeigendur og það er íslenska ríkið sem á þetta mest allt saman. Ráðherra valdi náttúrupassa- leiðina, það var sú leið sem samtök ferðaþjónustu vildu fara en kannast lítið við það í dag. Náttúrupassa-leiðin er umdeild svo ekki sé meira sagt. Ókostir hennar eru þeir helstir að það þarf að byggja upp mikið ríkisbákn í kringum náttúrupassann og eftirlitið er illframkvæmanlegt svo eitthvað sé nefnt. Þá er engin trygging fyrir því að ríkið hrifsi ekki til sín það gjald sem innheimt er fyrir náttúrupassann eða hluta þess eins og gerst hefur með aðra markaða tekjustofna.

Við teljum að það eigi að innheimta gjald en fyrst og fremst af þeim sem gera út atvinnurekstur á þessar náttúruperlur, hvort sem þær eru í eigu ríkisins eða einkaeign. Almenningur á ekki að borga. Það á að virða hin lögbundna almannarétt um frjálsa för um landið. Það á ekki að nota hann í viðskiptalegum tilgangi.

Í umfjöllun minni um Náttúruverndarlögin fjallaði ég um þennan svokallaða almannarétt og það hvernig ferðamannaiðnaðurinn hefur haft áhrif á hann. En á meðan við rífumst um þetta blæðir náttúrunni með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Á þessu þarf að finna lausn og það fljótt.

Stjórn samtakanna hefur haldið 5 bókaða stjórnarfundi frá síðasta aðalfundi. Það hefur aukist mikið að okkur er boðið að taka þátt í nefndum og samráði þar sem landeigendur eiga hagsmuna að gæta og er stjórnin alltaf tilbúin að taka þátt á þeim vettvangi og eiga skoðanaskipti og rökræðu við hina ýmsu aðila. Við tókum t.a.m. þátt í málþingi ásamt Bændasamtökunum og Ferðaþjónustu bænda sem bar yfirskriftina Landnýting og ferðaþjónusta með hliðsjón af almannarétti.

Hér á eftir verður málþing sem ber yfirskriftina „Landskipti og dreifð eignaraðild að landi“ og höfum við fengið valinkunna aðila til að fjalla um þessi mál. Það eru örugglega skiptar skoðanir meðal landeigenda um ýmis atriði sem fjallað verður um á þessu málþingi. Þetta á líka að vera fræðsla fyrir landeigendur um þau lög og reglur sem gilda um landskipti og réttindi meirihluta og minnihluta ef um óskipta sameign er að ræða svo eitthvað sé nefnt. Landsskiptalögin eru orðin gömul eða frá 1941, spurningin er hvort ekki sé þörf á endurskoðun á lögunum?

Góðir fundarmenn!

Með þjóðlendulögunum átti að koma eignarhaldi á landi á hreint; hvað væri í eigu íslenska ríkisins og hinsvegar hvað væri í einkaeign. Engum datt í hug þegar þjóðlendumálin voru í mótun að ríkisvaldið myndi ganga fram gegn landeigendum með þeim hætti sem raun ber vitni. Alþingismenn töldu okkur trú um að þjóðlendulögin beindust að því að skýra eignarrétt á miðhálendi Íslands. Annað hefur komið í ljós og framkvæmd laganna mun leiða til þess að misstór svæði eru tekin undir þjóðlendur vítt og breitt um landið. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig þessum landsvæðum verður stjórnað í framtíðinni enda lítill áhugi hjá ríkisvaldinu að sinna skyldum sínum sem landeigandi. Það er varla ofmælt, að sé litið til þeirra jarða sem eru í eigu ríkisins megi segja að ríkið sé versti landeigandi á Íslandi. Nú koma fram aðilar sem krefjast þess í gegnum svokallaðan almannarétt að þeir eigi nýtingarrétt á landi í einkaeign og megi byggja starfsemi sína á slíkum notum án leyfis eigenda. Við þessum kröfum þurfum við að bregðast af fyllstu hörku.

Landeigendur góðir. Við skulum ávallt muna að við berum mikla ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum. Okkur ber að skila landinu jafn góðu eða betra til komandi kynslóða en við tókum við því. Þessu megum við aldrei gleyma.

Ég vil í lokin þakka stjórnarmönnum frábært samstarf á liðnu ári og ykkur landeigendum góðir fyrir gott samstarf.

Hofi, 7. febrúar
Örn Bergsson